Hermenn í miklum hremmingum á Íslandi

Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabankans, stofnaði félagið Winterhouse árið 2008 til þess að framleiða kvikmyndir. Félagið stofnaði hann ásamt Steingrími Wernerssyni. Eina verk félagsins til þessa hefur verið framleiðsla kvikmyndarinnar Veturhús sem frumsýnd verður á Stöð 2 á páskadag.

Að sögn Sturlu er heimildarmyndagerð eitt af áhugamálum hans og Steingríms, en báðir hafa sett milljónir í framleiðslu kvikmyndarinnar, en það telst nokkuð sérstakt að menn í viðskiptalífinu séu einnig kvikmyndaframleiðendur. Ásamt því að Sturla og Steingrímur framleiða kvikmyndina í gegnum Winterhouse er Þorsteinn J. Vilhjálmsson  höfundur myndarinnar.

Veturhús fjallar um 60 manna hóp hermanna sem ætlaði sér að ganga frá Reyðarfirði til Eskifjarðar í janúar 1942. Gangan var í raun heræfing en vegna færðar varð hópurinn að ganga erfiðari leið en ella. Um miðja nótt skall á óveður á heiðinni og lentu hermennirnir í miklum hrakningnum. Sagan verður meðal annars sögð frá sjónarmiði hermannsins Ron Davies, sem hélt dagbók allan þann tíma sem hann var í hernum.

Magnús Pálsson og fjölskylda hans frá Veturhúsum í Eskifirði fengu viðurkenningu fyrir að bjarga fjölmörgum hermönnum í göngunni, en margir þeirra urðu úti vegna veðursins. Mynd af viðurkenningunni má sjá hér fyrir neðan (Magnús er lengst til vinstri), en það sem er hvað sérstakast við hana er að Magnús fékk viðurkenninguna í janúar á þessu ári, eða 70 árum eftir hremmingarnar.

Að sögn Sturlu var heimildavinna fyrir myndina gríðarlega erfið, en hann studdist meðal annars við sögur föður síns sem ólst upp á Eskifirði. Það hafi kveikt áhugann á gerð myndarinnar. Þorsteinn J. hlaut mikla hjálp frá Safnastofnunar Fjarðabyggðar við gerð myndarinnar. Að sögn Þorsteins mun myndin einnig sýna áður óbirt myndbrot frá Reyðarfirði sem hann fann við heimildaleit á Englandi.

Eins og áður sagði verður kvikmyndin Veturhús eftir Þorstein J. frumsýnd á Stöð 2 á páskadag (sunnudaginn 8.apríl) kl.20:20. Við mælum með þessu fyrir alla áhugamenn um íslenskar kvikmyndir og heimildarmyndanörda um stríð (svona eins og mig).

Stikk: