Oren Peli og hryllingurinn í Chernobyl

Fyrsta stiklan fyrir nýjustu kvikmynd framleiðandans Oren Peli, sem færði okkur hina óvæntu Paranormal Acivity, hefur ratað upp á yfirborðið. Myndin ber nafnið Chernobyl Diaries og er ekki found footage-mynd eins og flestir héldu. Myndin fylgir hópi ferðamanna á slóðum Chernobyl og kjarnorkuslyssins frá 1986, en í ljós kemur að staðurinn er ekki jafn yfirgefinn og þau grunaði.

Þetta er fyrsta kvikmynd leikstjórans Bradley Parkers, en hingað til hefur hann aðallega unnið við tæknibrellur í stórmyndum. Oren Peli er einn af þremur handritshöfundum myndarinnar, en hinir tveir skrifuðu og léku í nokkrum þekktum Asylum-myndum á borð við Titanic II (sem Tommi hefur m.a. rifið í tætlur), The Day The Earth Stopped og Paranormal Entity (kaldhæðnislegt, ekki satt?).

Hrollvekja byggð í kringum eftirmála þess sem gerðist á Chernobyl-svæðinu hljómar satt að segja mjög áhugaverð, því ekki aðeins er ógnarlega saga borgarinnar eitthvað svakalegasta martraðar eldsneyti allra tíma, heldur er staðurinn líklegast sá drungalegasti á jarðríki í dag.

Er ekki of mikil geislun í borginni til að þetta fólk sé bara að ráfa um (og hvað þá í kjarnaofninum sem olli slysinu)? Að mínu mati er það sem stiklan sýnir ekki að grípa mig, þetta virðist vera mjög mikil rehash-mynd af gömlum klisjum á ferskri grund. Hvernig lýst ykkur á hugmyndina að Chernobyl-hrollvekju og virkar stiklan eitthvað fyrir ykkur?