Partýið stækkar í Project X… 2

Partýmyndin Project X var ekki lengi að græða tilbaka framleiðslukostnaðinn sinn í bandaríkjunum og hefur þegar náð að tvöfalda hann, og í hinum gráðuga Hollywood-heimi þýðir það einfaldlega tvennt; að aðstandendur séu ofsalega kátir og eflaust syndnandi í vinnutilboðum, og að framhald sé gjörsamlega óhjákvæmilegt. Annars er ekkert erfitt að græða litlar $12 milljónir til baka, en Project X kostaði ekki mikið meira en það, sem útskýrir af hverju þessar svokölluðu „found footage“ myndir eru svona vinsælar.

Handritshöfundurinn Michael Bacall (sem meðskrifaði Project X ásamt Scott Pilgrim vs. The World) hefur verið fenginn til þess að strika úrdrátt að framhaldinu, og þeir sem hafa séð Project X geta rétt svo ímyndað sér hversu langt partýið þarf að ganga í mynd númer tvö ef það á að toppa forvera sinn.

Project X verður frumsýnd 16. mars en haldnar voru almennar forsýningar síðustu helgi, þannig að það ættu kannski einhverjir notendur á síðunni að vera þegar búnir að sjá hana.
Ef þú ert einn af þeim máttu endilega láta heyra í þér og segja hvernig þér fannst hún.