Misskilningur með Kidman og Dogville

Hin eðalfína leikkona Nicole Kidman var lengi vel óákveðin um hvort hún ætti að leika aðalhlutverkið í nýjustu mynd Lars Von Trier ( Dancer in the Dark ) sem nefnist Dogville. Framleiðsla myndarinnar stöðvaðist vegna þess að hún gat aldrei sett nafnið sitt á samninginn og því tók aðalframleiðandi myndarinnar Peter Aalbek Jensen á það ráð að reka hana. Þá loksins tók hún við sér og sendi honum samninginn undirritaðan en ekki fyrr en stór orð höfðu verið sögð. Stellan Skaarsgaard ( Breaking the Waves ) sem er annar af aðalleikurum myndarinnar hafði sagt í viðtali við danska blaðið Expressen að hann væri feginn að hún væri hætt við því öll myndin hefði þjáðst meðan hún væri heima að dandalast með Russell Crowe. Von Trier er þó víst himinlifandi enda var handritið skrifað með Kidman í huga. Nú þegar aðild hennar að verkefninu er tryggð er bara að sjá hvort einhver fleiri vandræði komi upp á yfirborðið við tökur á myndinni.