Bridget Jones eignast barn

Þriðja myndin um ævintýri dagbókarpennans Bridget Jones er í burðarliðnum en ýmis vandræði hafa verið að tefja fyrir svo að tökur geti hafist. Leikstjórinn Paul Feig (Bridesmaids) hætti við að leikstýra seint á síðasta ári en Bretinn Paul Cattaneo hefur hlaupið í skarðið, hann er best þekktur fyrir frábæru gamanmyndina The Full Monty og ætti því að henta vel í starfið.

Núna er orðrómur á kreiki um að Hugh Grant sé hundfúll vegna handritsins, honum þykir það víst ekki nógu gott og vill fresta tökunum til að hægt sé að gera handritið betra, sumir halda því fram að hann ætli jafnvel að hætta við að leika í myndinni. Í dag gáfu framleiðendur myndarinnar hjá Working Title út yfirlýsingu þess efnis að ekkert væri hæft í þessum sögusögnum um dívustæla Grant en staðfestu þó að enn væri verið að vinna í handritinu, tökur eiga að hefjast um leið og þeirri vinnu er lokið. Colin Firth hefur látið út úr sér að sagan muni verða á þá leið að karakter hans, Mark Darcy, og Bridget geti ekki eignast barn saman og því muni hún verða ófrísk eftir Daniel Cleaver sem Hugh Grant leikur.

Söguþráðurinn yrði þá svipaður og í síðustu dálkunum sem Helen Fielding (höfundur Bridget Jones’s Diary) skrifaði um Bridget en þeir birtust í The Independent frá 2005 til 2006.  Þó er enn verið að vinna í handritinu eins og áður sagði þannig að sagan gæti breyst.