Gagnrýni: The Help

Það er alltaf mikilvægt þegar kvikmyndir geta vakið fólk almennt til umhugsunar og umræða um hin ýmsu alvarlegu málefni, hvort sem þau snerta nútímann eða fortíðina, og ekki síður þegar kynþáttafordómar eru til umfjöllunnar. Það þarf þó ekki alltaf að vera þannig að kvikmyndir sem snerta slík málefni þurfa að vera svo átakanlegar að maður gengur út af þeim haldandi fyrir magann eins og einhver hafi kýlt í hann. Stundum er fínt að fara Disney-leiðina og mýkja hlutina aðeins með staðalímyndum og einföldun, en þá svo lengi sem heildarniðurstaðan bjóði upp á ákveðinn kraft til að ýta undir skilaboðin. Þannig séð mætti líta á The Help sem American History X fyrir The Blind Side-hópanna. Það er rosalegur sjónvarpsmyndabragur á henni og þótt hún sé kannski svolítið bitlaus er hún langt frá því að vera áhrifalaus.

Afþreyingargildið er gott, myndatakan prýðileg og búninga- og sviðshönnun lætur mann aldrei gleyma því á hvaða tíma sagan gerist. Trompspilið liggur þó í höndum leikaranna, sem eru hver öðrum betri og gefa efninu almennilegt líf. Sem leikkona hefur Emma Stone staðið sig betur með hverju árinu og því fylgir mikið hrós fyrir myndirnar sem hún hefur leikið í (Easy A í fyrra, Zombieland þar áður). Bryce Dallas Howard, Jessica Chastain, Sissy Spacek og Allison Janney eru einnig allar frábærar þótt bestar hafi umhugsunarlaust verið þær Octavia Spencer, Cicely Tyson og Viola Davis (óaðfinnanleg, þessi kona!). Allir sjá það strax að kröfuhörðustu hlutverkin eru þeirra megin og í kjölfarið langbestu senurnar. Sagan er fljót að ná þeirra persónum á okkar band og ég læt ekki stolt karlmennsku minnar koma í veg fyrir að segja að það sem þær ganga í gegnum, bæði það slæma og góða, tosar þétt í hjartarætur mínar.

Lengd myndarinnar gæti ýtt einhverjum frá (aðallega karlmönnum og kvikmyndasnobbum samt), sérstaklega þar sem við vitum að ekki margt óvænt er að fara að gerast á þessum 140 mínútum. Ekki nema einn kvikindislega ósmekklegur hrekkur. Þeir sem hafa séð myndina – eða lesið bókina – vita samtundis hvað ég er að tala um enda er þetta marg, margoft nefnt. Ég læt það hins vegar í friði að útskýra atvikið, nema með þeirri vísbendingu að hér sé hugsanlega komin konumynd sem Tom Six gæti fílað.

The Help er samt vönduð og vel heppnuð „mömmumynd“ sem mun fá marga(r) til að gráta bæði sorgar- og gleðitárum. Hún er töluvert betri en The Blind Side, að mínu mati, en einhverra hluta vegna finnst mér þessar myndir vera sambærilegar í dúnmjúku skilaboðum sínum um að gefa hvítum áhorfendum létt samviskubit. En fyrir konur sem elska hjartnæmar períódumyndir er þetta ekkert minna en skylduáhorf. Drengirnir mega alveg hundskast og horfa með ef hugarfarið er jákvætt.


(7/10)

Hvað fannst þér um The Help?