Kevin Kline bætist við næstu mynd Charlie Kaufman

Charlie Kaufman vinnur nú hörðum höndum að næstu kvikmynd sinni, Frank or Francis, sem hann mun bæði skrifa og leikstýra; en nú hefur Kevin Kline bæst við leikhóp hennar, sem var ansi áhugaverður fyrir: Þar ber helst að nefna Jack Black, Nicolas Cage og Steve Carell.

Myndin verður ádeila á nútíma Hollywood í söngformi og fjallar um rifrildi milli leikstjóra og bloggara á netinu. Black mun fara með hlutverki bloggarans, Francis, sem er metnaðarfullt internet ‘tröll’ og gagnrýnir kvikmyndir. Carell mun leika leikstjórann, Frank, sem er árangursríkur en á sama tíma ansi tilgerðarlegur; einnig heldur hann framhjá konunni sinni. Cage mun leika frægan leikara að nafni The Emcee, sem er hvað þekktastur fyrir stórbrotnar og vinsælar myndir, þar á meðal hans nýjasta: ‘Fat Dad’. Kline mun leika tvö hlutverk í myndinni; Richard Waller, bróðir leikstjórans Jonathan Waller sem leikstýrði m.a. tekjuhæstu kvikmynd allra tíma, ‘Hiroshima’; og Höfuð Richards sem finnur upp fyrir Jonathan kvikmynd sem höfðar til eins margra og hægt er en er á sama tíma ótrúlega óheiðarleg fyrir kvikmyndagerðarmanninn.

Kaufman er þekktur fyrir einkennandi söguþræði sína, en hann skrifaði m.a. Eternal Sunshine of the Spotless Mind, Being John Malkovich og Adaptation. Hann settist í leikstjórastólinn í fyrsta skiptið árið 2008 með myndinni Synecdoche, New York, en Frank or Francis verður önnur myndin hans í leikstjórahlutverki. Búist er við að tökur hefjist í janúar næstkomandi.