Viðtal: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

Íslenska gamandramað Á annan veg var frumsýnt síðustu helgi og Kvikmyndir.is tók smá viðtal við leikstjóra myndarinnar, Hafstein Gunnar Sigurðsson. Farið var yfir nokkrar spurningar í tengslum við myndina sjálfa, en einnig kvikmyndasmekkinn hjá helsta aðstandenda hennar. Hafsteinn hafði ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt að segja um verkið og sjálfan sig. Endilega rennið yfir:

Hvernig varð myndin Á annan veg fyrst til?

Upphaflega setti ég mér það takmark að ég skyldi gera kvikmynd í fullri lengd með aðeins tveimur persónum, eitthvað sem mér þótti töluverð áskorun. Út frá því fór ég einhverra hluta vegna að hugsa um vegagerðarmenn á afviknum og einagruðum stað og eftir því sem ég rannsakaði betur starfsaðferðir vegagerðarmanna hér á árum áður heillaðist ég meira og meira af þessu starfi. En þótt það sé ramminn utan um söguna þá eru það fyrst og fremst persónurnar og samband þeirra sem heillaði mig. Í kjölfarið fékk ég svo Svein Ólaf (leikara) til liðs við mig og við köstuðum hugmyndinni á milli þar til Hilmar (leikari) kom inn í þetta og svo bættist Þorsteinn Bachmann við. Það var algjörlega frábært að vinna með þeim öllum, mjög skapandi og gefandi í alla staði.

Hvernig myndirðu lýsa þemum myndarinnar?

Grútleiðinlegt sumarstarf, vinátta, 80s, ástin og lífið.

Einhver ákveðin sena úr myndinni sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þér? og hvers vegna?

Ein af mörgum er hjólbörusenan. Og kannski sérstaklega af því hvernig hún varð til. Meðan á tökum stóð fórum við yfir á Flateyri eina helgina þegar við áttum frí og vorum að fá okkur bjór í garði góðs vinar sem dvelur þar á sumrin. Þar sem ég sit á spjalli í sumarnóttinni kemur Svenni (leikari) allt í einu hlaupandi fyrir hornið inn í garðinn ýtandi hjólbörum á undan sér með Himma (leikara) liggjandi í þeim. Ég gjörsamlega rifnaði úr hlátri og áttaði mig á að að þetta var ekki aðeins stórkostleg sena sem yrði að vera í myndinni heldur smellpassaði hún inn í handritið.

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í kvikmyndagerð/uppáhalds leikstjóra?
Robert Altman, Ingmar Bergman, P.T. Anderson, Antonioni, Michael Haneke, Scorsese í gamla daga, Wernor Herzog, Kieslowski og marga, marga fleiri. Já og svo er ég mjög undir áhrifum frá Kraftwerk svona fagurfræðilega séð.

Svona á góðum degi, heima í stofu, hvort ertu meira fyrir „action,“ drama eða grín?
Ég er voða lítið fyrir „action“ en það skiptir eiginlega ekki máli hvort sagan sé drama eða grín svo lengi sem hún er góð, myndinni vel leikstýrt og persónurnar eru áhugaverðar. Það sem ég hef fyrst og fremst áhuga á í kvikmyndum eru manneskjurnar.

Hvaða kvikmynd geturðu alltaf horft á aftur og aftur og hvers vegna?
Short Cuts. Ætli það sé ekki af því að hún fjallar um áhugaverðar persónur sem standa frammi fyrir mannlegum vandamálum. Svo er Altman bæði sjúklega flinkur með leikara og myndavél og bara eitthvað svo fín stemmning í þessari mynd sem ég nenni að sogast inn í aftur og aftur.


Hvers konar myndir (e. „genre“) geturðu bara engan veginn horft á?
Sci-Fi, fantasíu-star-wars-dótarí. Ég er voðalega mikill realisti í mér þannig að svoleiðis myndir höfða lítið til mín.

Hefurðu einhvern tímann gengið út úr hléi?
Já, lífið er of stutt fyrir leiðinlegar bíómyndir og þar sem maður á aldrei eftir að komast yfir allar myndirnar sem mann langar að sjá eða lesa allar bækurnar sem mann langar til að lesa þá verður maður að grisja miskunnarlaust.

Að lokum:
Ferðu mikið í bíó og er eitthvað sem þú ert spenntur að sjá á næstunni?

Ég fer ekki nærri því nógu mikið í bíó en það er af því að úrvalið er svo hrikalega einsleitt í bíóhúsum landsins. Ég myndi gjarnan vilja fara í bíó oft í viku en því miður leyfir framboðið það ekki. En ég gríp alltaf tækifærið þegar eitthvað gæðalegt er á boðstólnum. Hins vegar rak ég augun í að það er óvenjufínt úrval á leiðinni. Má þar nefna: Tree of Life, Drive, Melancholia, The Skin I Live In og Eldjall að sjálfsögðu.

Á annan veg er sýnd um þessar mundir í Háskólabíói og Smárabíói.