Inni – nýr DVD frá Sigur Rós kemur út í nóvember

Hljómsveitin Sigur Rós hefur tilkynnt um útkomu nýs DVD disks með tónleikum hljómsveitarinnar í Alexandra Palace árið 2008, ásamt tónleikaplötu. Diskurinn og platan bera nafnið Inni. Myndinni er leikstýrt af sama manni og gerði mynd hljómsveitarinnar Arcade Fire; Miroir Noir, Vincent Morisset.

Frá þessu segir í enska blaðinu The Guardian.

Inni er samt ekki hefðbundin heimildamynd um tónleikaferð, ekki frekar en síðasti DVD sem þeir sendu frá sér, Heima, árið 2007. Myndin sem er 75 mínútna löng, sýnir tónleika sveitarinnar í gegnum aðra upptöku af tónleikunum! Eftir að hafa tekið upp báða tónleikana í Alexandra Palace, þá tók Morisset mynd af fyrstu myndinni á 16 mm kvikmyndavél og notaði ýmsa prisma strendinga og fundna hluti til að breyta og trufla efnið. Í tilkynningu sem The Guardian vísar í, segir að á meðan Heima var litrík og ljúf, þá er Inni einlitari og naumari, og á meira sameiginlegt með mynd Fritz Lang, Metropolis, en mynd Martin Scorsese Shine a Light, til að gefa einhverja mynd af verkefninu.

Inni kemur út í nóvember.