Spurlock kemur til Íslands og svarar spurningum áhorfenda

Hinn heimsþekkti bandaríski kvikmyndaleikstjóri Morgan Spurlock er væntanlegur til Íslands í næstu viku í tilefni af frumsýningu sinnar nýjustu kvikmyndar; The Greatest Movie Ever Sold.

Myndin er frumsýnd föstudaginn 26. ágúst en miðvikudaginn 24. ágúst verður sérstök forsýning í Háskólabíói að viðstöddum sjálfum Spurlock. Hann mun kynna myndina fyrir sýninguna og svara spurningum áhorfenda eftir hana. Almenningi mun gefast kostur á að tryggja sér miða á spurt og svarað sýninguna á Miði.is og er áætlað að miðasalan hefjist í vikulok.

Spurlock sló rækilega í gegn á heimsvísu árið 2004 með kvikmyndinni Super Size Me sem Græna ljósið gaf út. Þar tók hann til umfjöllunar fyrirbærið McDonalds og gerði það með einkar frumlegum og skemmtilegum hætti; hann borðaði eingöngu mat frá McDonalds í 30 daga. Heilsunni hrakaði ótrúlega fljótt og undir lokin var hann nær dauða en lífi. Myndin olli miklu fjaðrafoki, breytti matseðlum McDonalds til frambúðar, naut gríðarlegra vinsælda um allan heim og var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmynd ársins. Spurlock sótti einmitt Ísland heim við frumsýningu þeirrar myndar og telst því sannkallaður Íslandsvinur.

Græna ljósið gaf einnig út næstu mynd kappans sem kom út árið 2008 og kallaðist Where in the World is Osama Bin Laden? Eins og nafnið gefur til kynna snerist myndin um leit Spurlocks að eftirlýstasta manni veraldar; hann ferðaðist um öll Mið-Asturlöndin og spurði og spurði. Á leiðinni lenti hann í ótrúlegum uppákomum og hitti fyrir ógleymanlega karaktera.

„Í The Greatest Movie Ever Sold fjallar Spurlock með sínu nefi um áhrif auglýsenda á kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Og eins og hans er von og vísa fer hann ótroðnar slóðir; hann fjallar um kostanir í kvikmyndum með því að reyna fjármagna heimildarmyndina sem við erum að horfa á að öllu leyti með fjármagni frá auglýsendum. Ótrúlegt en satt; honum tekst það og á endanum höfum við fengið sláandi en stórskemmtilega innsýn í innviði kvikmyndabransans og sjáum hvernig hann hefur svo til runnið saman við auglýsingabransann,“ segir í frétt frá Græna ljósinu.

Innan skamms verður tilkynnt nánar um spurt & svarað forsýninguna á myndinni, en þeir sem eru skráðir á póstlista Græna ljóssins eða eru vinir þess á Facebook munu fá tækifæri til að tryggja sér miða á sýninguna áður en almenn sala hefst.