Al Pacino og Midler í mynd um Phil Spector – tukthúslim og upptökustjóra

Leikstjórinn David Mamet mun skrifa handrit og leikstýra mynd fyrir HBO Films, um upptökustjórann þekkta Phil Spector, sem nú situr í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir morðið á leikkonunni Lana Clarkson árið 2003.
Verkefnið er í vinnslu, en ef það fer alla leið í framleiðslu þá mun Bette Midler leika verjanda Spectors og Al Pacino leika Spector sjálfan.
Talið er að Jeffrey Tambor muni leika annan verjanda í myndinni, en kastljósi myndarinnar verður beint að Spector og verjanda hans, sem Midler leikur.

Framleiðendur verða Mamet, Pacino og Barry Levinson. Ekki er búið að tilkynna opinberlega að myndin verði gerð, en undirbúningur er langt kominn.

Bette Midler er heimsfræg leik- og söngkona sem byrjaði feril sinn á Broadway í Fiðlaranum á þakinu, og varð fræg fyrir leik og söng á klúbbum, tónleikum og fyrir tónlist á hljómplötum og leik og söng í kvikmyndum. Al Pacino þarf varla að kynna, en nú síðast fékk hann tilnefningu til Tony verðlauna fyrir leik sinn í hlutverki Shylock í leikritinu Kaupmaðurinn í Feneyjum. Mamet er Pulitzer verðlaunahafi, sem skrifað hefur leikrit eins og American Buffalo, Glengarry Glen Ross, Speed-the-Plow, Race og fleiri.

Phil Spector framleiddi hljómplötur stúlknahljómsveita á sjöunda áratug síðustu aldar, og vann síðar með Ike og Tinu Turner, Bítlunum, John Lennon og fleiri tónlistarmönnum.