Renner og Lopez til Ísaldar 4

Leikararnir Jeremy Renner og Jennifer Lopez hafa ákveðið að ganga til liðs við næstu Ice Age teiknimynd sem á að heita: Ice Age: Continental Drift, og er sú fjórða í röðinni. Í myndinni hitta þau fyrir margt gott fólk, eins og kanadísku hip-hop stjörnuna Drake, grínistana Aziz Ansari og Wanda Sykes, Keke Palmer frá Nickelodeon.

Gamlir kunningjar eru þarna einnig úr fyrri myndum, eins og þau Ray Romano, Queen Latifah, Denis Leary, John Leguizamo, Seann William Scott og Josh Peck.

Leikaravalið fyrir myndina var tilkynnt í gær, þriðjudag, á fundi hjá Fox kvikmyndaverinu.

Fyrstu þrjár Ice Age myndirnar hafa þénað tæpa 2 milljarða Bandaríkjadala á alheimsmarkaði. Framleiðendur Ice Age gera það einmitt gott þessa dagana með teiknimyndinni Rio sem hefur halað inn einar 300 milljónir Bandaríkjadala um heim allan á einungis þremur vikum, en myndin er einmitt á toppnum á íslenska aðsóknarlistanum.

Ice Age er þó ekki bara teiknimynd, því von er á sérstökum jólasjónvarpsþætti um næstu jól, auk leikja fyrir farsíma og netið.

Ice Age: Continental Drift kemur í bíó 13. júlí 2012. Jeremy Renner mun leika Gutt, sem er meistari hafsins. Jennifer Lopes mun leika Shira, sem er sverðtennt tígrisdýr sem bræðir hjarta Diego, sem Leary leikur. Romano snýr aftur sem Manny og Queen Latifah sem Ellie, en bæði eru þau mammútar.