Daredevil fær nýja byrjun

20th Century Fox stefna nú að því að koma ofurhetjunni Daredevil aftur í bíó. Samkvæmt ComingSoon er leikstjórinn David Slade talinn afar líklegur til að taka verkefnið að sér, og mun nýja myndin ekki tengjast fyrri myndinni.

Hin gamla Daredevil skartaði Ben Affleck í hlutverki Matt Murdock, sem missir sjónina í æsku en í öðlast í kjölfarið ofurkrafta. Tekur hann þá upp nafnið Daredevil og verndar hverfi sitt í New York gegn ýmsum ógnum. Myndin hlaut heldur slæma dóma og því aldrei gert beint framhald um ofurhetjuna blindu.

Slade, sem braust fram á sjónarsviðið með myndinni Hard Candy frá árinu 2005, er ekki ókunnugur myndasögum en hann leikstýrði hrollvekjunni 30 Days of Night, sem byggð var á samnefndri myndasögu.

– Bjarki Dagur