Geðstirði þjálfarinn úr Glee í Prúðuleikaramynd

Bandaríska leikkonan Jane Lynch hefur tekið að sér hlutverk í nýrri mynd um Prúðuleikarana sem Disney fyrirtækið er að fara að gera.
Lynch, sem þekkt er fyrir leik sinn í hlutverki hins geðstirða klappstýruliðsþjálfara, Sue Sylvester, mun í Prúðuleikurunum leika fangavörð.
Nú þegar er búið að ráða Jason Segal í myndina, en hann mun leika aðalhlutverkið í myndinni, þ.e. af þeim hlutverkum sem manneskjur leika.
Machete stjarnan Danny Trejo og Donald Glover úr sjónvarpsþáttunum Community eru einnig á meðal leikara í myndinni.
Jason er einnig einn af handritshöfundum myndarinnar, ásamt Nicholas Stoller, og mun einnig framleiða ásamt David Hoberman og Todd Lieberman.
Á meðal annarra frægra leikara sem orðaðir eru við myndina eru Amy Adams og Chris Cooper.
Leikstjóri verður James Bobin sem þekktur er fyrir vinnu sína við MTV Europe tónlistarverðlaunin og myndina The Flights of the Concords sem frumsýna á á næsta ári.
Síðasta Prúðuleikaramyndin, Muppets from Space, kom út árið 1999, en einnig hafa komið út nokkrar myndir sem hafa farið beint í sjónvarp.
Jane mun ásamt því að leika í Prúðuleikurunum, koma fram á næstunni í myndinni Paul með þeim Simon Pegg og Nick Frost sem fjallar um tvo breska teiknimyndanörda sem ferðast yfir þver og endilöng Bandaríkin og hitta geimveru fyrir utan hið dularfulla Area 51.