Planet Of The Apes á síðasta snúning

Hin margumtalaða endurgerð á hinni sígildu Planet of The Apes sem heitir einnig Planet of the Apes og sýna á 27. júlí í kvikmyndahúsum vestra, er einfaldlega ekki alveg tilbúin. Þegar er búið að fresta einhverjum fyrirhuguðum forsýningum á myndinni, því enn er verið að vinna að myndinni. Brellukarlarnir eru enn að vinna við sumar tölvubrellurnar og leikstjórinn Tim Burton ( Sleepy Hollow ) er að taka upp lokaatriðið upp á nýtt með leikurunum, en þeirra á meðal eru Mark Wahlberg ( The Perfect Storm ) og Helena Bonham Carter ( Fight Club ). Á einhverjum forsýningum hlógu áhorfendur að endinum í stað þess að gapa af undrun eins og til var ætlast. Einnig er tónskáld myndarinnar Danny Elfman ( Mars Attacks! ) að laga skor myndarinnar eitthvað til því framleiðendur vildu að hann gerði eitthvað sem líktist meira tónlistinni í Gladiator. Vonandi klárast þetta verkefni í tæka tíð því mikill spenningur hefur myndast fyrir myndinni.