Ameríska Lisbeth fundin?

David Fincher er á fullu ásamt framleiðendum að leita að hinni „amerísku“ Lisbeth Salander, þar sem leikstjórinn er ákveðinn í að endurgera sænsku spennumyndina Karlar sem Hata Konur (eða The Girl with the Dragon Tattoo, eins og hún heitir í BNA) sem byggð er á skáldsögu eftir Stieg Larsson. Íslendingar þekkja Millennium-kvikmyndaseríuna nokkuð vel, enda fóru samtals yfir 70 þúsund manns á allar myndirnar þegar þær voru sýndar í bíó. Mörgum þykir þetta samt vera hörð krafa því flestir eru sammála því að Noomi Rapace hafi staðið sig frábærlega í hlutverkinu í sænsku myndunum.

Annars er búið að þröngva niður í fimm kandídata, eða svo er a.m.k. sagt í dag. Það er ekki búið að halda formlegar áheyrnarprufur þannig að maður veit aldrei hvað gæti breyst ef leikstjórinn reynist ósáttur við allt úrvalið. Þrjár af þessum stelpum eru ástralskar, ein bandarísk og önnur frönsk. Undanfarið hafa nöfn komið til greina á borð við Natalie Portman, Anne Hathaway, Scarlett Johansson, Keira Knightley, Ellen Page og Carey Mulligan. En hér eru þessar fimm sem koma til greina (endilega segið hverja ykkur líst best á):

1. Rooney Mara:


Þessi hefur mestmegnis verið sjáanleg í indie-myndum en í ár sást hún leika Nancy í endurgerðinni á A Nightmare on Elm Street. Hún leikur einnig í The Social Network, sem kemur út í október.

2. Emily Browning:


Ef þið hafið séð Ghost Ship, The Uninvited eða Lemony Snicket’s A Series of Unfortunate Events þá ættuð þið að þekkja Browning. Hún mun næst sjást í Sucker Punch (leikstýrð af Zack Snyder). Smellið hér ef þið viljið skoða nokkur sjóðheit „karakter-plaköt“ fyrir þá mynd.

3. Sophie Lowe:


Undirritaður er alveg „lost“ á þessari stelpu. Hún lék víst í einhverju sem nefnist Beautiful Kate og sást síðan í spennutryllinum Road Kill. Hringir þetta einhverjar bjöllur?

4. Léa Seydoux:


Þessi er eitthvað þekkt í heimalandi sínu (Frakklandi) en er ókunnug á vestrænum markaði. Það sást reyndar til hennar í fyrsta kaflanum í Inglourious Basterds (hún lék Charlotte LaPaditte).

5. Sarah Snook


Algjörlega óþekkt (ég held að við myndum muna eftir þessu nafni). Hefur skotið upp kollinum hér og þar. Ekkert meir.

Þar hafið þið það. Ég læt vita um leið og ég veit eitthvað meira um þetta.

T.V.