Náðu í appið
Bönnuð innan 7 ára

The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn 2011

Justwatch

Frumsýnd: 28. október 2011

This year, discover how far adventure will take you.

107 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 75% Critics
The Movies database einkunn 68
/100

Myndin fjallar um hinn unga og ákafa blaðamann Tinna sem gerir nánast hvað sem er fyrir góða frétt. Ákefð Tinna kemur honum oftar en ekki í ýmis vandræði og það stefnir svo sannarlega í slíkt þegar hann fer að grennslast fyrir um skipið goðsagnakennda, Einhyrninginn. Tinni uppgötvar vísbendingar eins og honum einum er lagið og í framhaldinu kynnist hann... Lesa meira

Myndin fjallar um hinn unga og ákafa blaðamann Tinna sem gerir nánast hvað sem er fyrir góða frétt. Ákefð Tinna kemur honum oftar en ekki í ýmis vandræði og það stefnir svo sannarlega í slíkt þegar hann fer að grennslast fyrir um skipið goðsagnakennda, Einhyrninginn. Tinni uppgötvar vísbendingar eins og honum einum er lagið og í framhaldinu kynnist hann hinum skrautlega og skapstóra Kolbeini kaptein. Í ljós kemur að forfaðir Kolbeins, Rögnvaldur rauði, var skipstjóri Einhyrningsins þar til skipinu var sökkt á mjög dularfullan máta. Ákveða þeir félagar að komast til botns í málinu, enda hermir sagan að fjársjóður einn mikill hafi fylgt Einhyrningnum niður á hafsbotn. Með í för slást tvíburarnir og leynilöggurnar léttgeggjuðu Skapti og Skafti, sem gera að sjálfsögðu hvert axarskaftið á fætur öðru. Vandamálið er að okkar menn eru ekki þeir einu sem leita fjársjóðsins.... minna

Aðalleikarar

Jamie Bell

Tintin (voice)

Andy Serkis

Captain Haddock / Sir Francis Haddock (voice)

Daniel Craig

Sakharine / Red Rackham (voice)

Nick Frost

Thomson (voice)

Simon Pegg

Thompson (voice)

Gad Elmaleh

Ben Salaad (voice)

Toby Jones

Silk (voice)

Enn Reitel

Nestor / Mr. Crabtree (voice)

Michelle Anselmo

Allan / Pirate Flunky #1 (voice)

Mackenzie Crook

Tom / Pirate Flunky #2 (voice)

Tony Curran

Lieutenant Delcourt (voice)

Cary Elwes

Pilot (voice)

Phillip Rhys

Co-Pilot / French Medic (voice)

Joe Starr

Barnaby (voice)

Mark Ivanir

Afghar Outpost Soldier / Secretary (voice)

Sebastian Roché

Pedro / 1st Mate (voice)

Claudette Didul

Mrs. Finch (voice)

Gilbert R. Hill

Sailor / Lookout (voice)

Nathan Meister

Market Artist (voice)

Leikstjórn

Handrit

Greinilegt að allir unnu heimavinnu sína
Ég mana alla sem kalla sig kvikmyndaaðdáendur að segja að þessi mynd líti ekki yndislega vel út einungis út frá nöfnunum sem koma að henni. Fyrir mig er þetta eins aðlaðandi hlaðborð og þau gerast. Steven Spielberg leikstýrir, Peter Jackson framleiðir með honum og handritið er í höndum snillinganna Steven Moffat (Coupling, Sherlock), Joe Cornish (Attack the Block) og Edgar Wright (Shaun of the Dead, Scott Pilgrim). Eins og það hljómi ekki nógu óviðjafnanlega spennandi þá skulum við strá nöfnum yfir eins og John Williams, Daniel Craig, Simon Pegg, Nick Frost og Andy Serkis (Mo-Cap meistarinn sjálfur) svo ekki sé minnst á það að myndin er byggð á þekktu fyrirbæri sem ég hef persónulega haft dálæti á síðan ég hætti að skríða. Og ef þú þekkir ekki fleira en eitt af þessum nöfnum þá geturðu því miður ekki sagt að þú sért kvikmyndaaðdáandi.

Tinnaævintýrin eftir Hergé (borið fram “ehr-zjei” - enda belgískt) eru engar gullstangir í sögu bókmenntanna en þau eru óneitanlega klassísk út og inn. Maður getur ekki annað en elskað yfirdrifnu en fjölbreyttu ævintýrin (sem breiðast út í allar mögulegu áttir, frá fjársjóðsleitarfantasíu til vísindaskáldskaps), aulahúmorinn, karakteranna, litríka teiknistílinn, pólitísku ádeiluna og ofureinföldu heimssýnina. Ég hálf vorkenni bandaríkjamönnum fyrir að hafa ekki þekkt jafnmikið til þeirra og við Evrópubúar. En þá kemur auðvitað voldugasti kvikmyndagerðarmaðurinn í Hollywood eins og kallaður og lagfærir það, eða gerir að minnsta kosti aðdáunarverða tilraun til þess.

Spielberg sýnir Tinnaævintýrunum ekki bara virðingu heldur knúsar hann fyrirbærið fast að sér eins og ekkert sé dýrmætara í heiminum. Hergé djókaði oft með það að honum hafi fundist Spielberg vera eini maðurinn sem ætti að leikstýra Tinnamynd og það komment gat ekki mögulega hitt betur á. Leikstjórinn veit hvað hann er að gera og gjörsamlega fattar Tinna á nokkurs vafa. Stíllinn er réttur, húmorinn er réttur, fílingurinn er réttur og leikararnir ekki síður. Meira að segja kreditlistinn er svo réttur að maður veit á fyrstu mínútunni að heildin sé í góðum höndum. Ég mun aldrei segja að myndin sé nógu fullnægjandi til að vera kölluð hágæða- eða tímamótamynd, en ég skal hvítur hundur heita ef þetta er ekki ævintýralega skemmtileg ræma sem heldur glæsilegum dampi og er greinilega meira en örlítið trú uppruna sínum.

Handritið tryggir að nóg sé að gerast og að aldrei sé of langt á milli fyndinna lína eða góðra "visual" brandara. Moffat, Cornish og Wright tóku saman þrjár bækur - Krabbinn með gylltu klærnar, Fjársjóður Rögnvaldar rauða og Leyndardómur Einhyrningsins (döö…) - og vöfðu þær gallalaust saman í 100-og-eitthvað mínútna rússíbana sem þýtur hjá og skilur mann eftir viljandi meira. Ég held að ég hafi verið miklu meira svekktur en ánægður þegar kreditlistinn í lokin rúllaði þar sem ég vildi strax fá næstu mynd (nennið að drífa ykkur?!). Þið megið semsagt búast við endi sem er hvorki cliffhanger né fullnægjandi lokun á sögunni. Hann er þarna einhvers staðar mitt á milli.

Útlitið er alveg fullkomið! Það tók mig smátíma að komast yfir það hvað Tinni er óhugnanlega raunverulegur - með áherslu á orðið “óhugnanlega” - en yfir heildina er hönnunin nákvæmlega eins og hún á að vera. Motion-Capture teiknimyndastíllinn tók nokkur stór skref á því tímabili sem Robert Zemeckis tileinkaði sér hann, en hér er eins og það sé loksins búið að fullklára hann. Spielberg/Jackson-teymið gat ekki annað en trompað spilin hans Zemeckis, hvað þá með fagmennina hjá Weta sér til aðstoðar. Útlitið nýtist þrefalt betur með teikningar Tinnabókanna í huga og þar sem öll myndin er tölvuteiknuð er hægt að gera ýmsa hluti með kameruna sem væri ómögulegt í alvöru tökum. Hasarinn er almennt fínn en eftir eltingarleikinn í þorpinu í Norður-Afríku var ég nálægt því að vera kjaftstopp. Það er langt, langt síðan Spielberg gerði seinast mynd sem var ekkert nema pjúra ævintýraafþreying og velti sér ekkert upp úr persónutengdu drama eða þýðingarmiklum móral. Þetta er besta afsökunarbeðni sem hann gat komið með eftir Indy 4.

Leikararnir hitta allir beint í mark. Jamie Bell er til fyrirmyndar sem titilkarakterinn með samkynhneigðu hárgreiðsluna. Gáfur hans komast fljótt til skila og það sem mikilvægara er að manni líkar strax vel við hann þótt hann neyðist aðeins of oft til að útskýra söguþráðinn upphátt (sem gerðist reyndar líka alltaf í bókunum, kallast þvingað “exposition”). Andy Serkis er brilliant og rúmlega það sem Kapteinn fyllibytta (ekki algengur persónugalli í bandarískum fjölskyldumyndum). Hann fær allar bestu línurnar og samleikur hans við Bell verður æðislegur um leið og þeir mætast fyrst. Frost & Pegg sýna einnig enn eitt skiptið hvers vegna þeir eru eitt alöflugasta gríntvíeykið í dag, og slá hvergi feilnótu sem Skaptarnir. Það hefði verið mjög auðvelt að gera þessa aula að píndum karakterum en hér eru þeir aldrei í slíkri hættu. Ég krefst þess að sjá meira af þeim í næstu lotu.

The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn er hreinræktuð afþreyingarmynd sem reynir aldrei að vera annað en það sem hún á að vera. Tinnaaðdáendur fá nákvæmlega það sem þeir vilja - nema þeir séu, af einhverjum ástæðum, á móti tölvutækninni - og örlítið meira í kaupbæti. Nördatilvísanir eru t.d. MJÖG margar, og ef þú sérð til þeirra þá ertu augljóslega aðdáandi. Þeir sem hafa ekkert séð þennan dreng áður munu samt geta skemmt sér eins og vitleysingar yfir svona einföldu, gamaldags fjöri í nýjum búningi, þótt þeir verða kannski ekki jafnörlátir og við sem þekkjum þetta. Hergé hafði rétt fyrir sér með leikstjórann, en hefði hann séð hvað handritshöfundarnir gerðu góða hluti með innihaldið held þá ég að hann hefði misst vitið úr ánægju.

Mjög gott bíó allavega. Ég held mig bara við það, enda ætti fyrsta málsgreinin í rauninni að duga til að sannfæra þig um að kíkja á myndina.

8/10

Spielberg skilur Tinna fullkomlega
Ég efast um að það hafi oft komið mynd með eins mikið af öflugu fólki á bak við myndavélina og The Adventures Of Tintin. Ekki nóg með það að Spielberg sé að leikstýra myndinni, heldur framleiðir hann myndina með Peter Jackson (sem leikstýrði/framleiddi The Lord Of The Rings þríleiknum), myndin er skrifuð af Edgar Wright (Shaun Of The Dead, Hot Fuzz, Scott Pilgrim vs. The World), Joe Cornish (Attack The Block) og Steven Moffat (Sherlock, Doctor Who), inniheldur tónlist eftir John Williams, kvikmynduð af Janusz Kaminski (tvöfaldur Óskarsverðlaunahafi) og klippt af Michael Kahn (þrefaldur Óskarsverðlaunahafi). Og til að toppa allt er leikaravalið frábært. Miðað við að myndin er leikstýrð af einum þekktasta leikstjóra allra tíma sem er ekki óvanur ævintýramyndum, skrifuð af þremur frábærum breskum höfundum og hefur nokkra æðislega breska leikara, þá er hægt að segja að þessi mynd sé mjög góð blanda af ævintýramynd á hæsta stigi með frábæran breskan húmor.

Ég hafði alltaf gaman af því að lesa Tinnabækurnar þegar ég var á mínum yngri árum. Mér fannst samt fyrstu bækurnar aldrei vera neitt sérstakar, og ég held að aðalástæðan sé hversu fáir aukakarakterar eru í þeim, en þeir eru eitt það besta við bækurnar. Annars eru bækurnar skemmtilegar, fyndnar og fullar af góðum ævintýrum. Kaldhæðnislega voru bækurnar sem eru byggðar á þessari mynd (þær eru þrjár) ekki til á mínu heimili.

Það er lítið hægt að kvarta yfir sögunni eða útlitinu. Þrátt fyrir að myndin blandi þremur heilum sögum í eina mynd sem er undir tveimur tímum, þá er hún mjög trú uppruna sínum og er aldrei dauður kafli í myndinni. Útlitið sjálft og stíllinn er frábært og smáatriðin sem myndin kemur með eru ótrúleg.

Motion-Capture stíllinn er næstum því fullkominn í þessari mynd. Karakterarnir ná frábærri blöndu af raunveruleika á meðan þeir eru ennþá teiknimyndalegir. Enginn karakter er ólíkur uppruna sínum og sumir eru ótrúlega raunverulegir, og þá sérstaklega aðalkarakterarnir. Weta hafa verið kóngar tölvubrellurnar í meira en áratug og þeir eru ekkert að fara að missa þann titil. Jafnvel þótt útlitið sé ekki eins byltingarkennt og Lord Of The Rings eða Avatar, þá skilar það sínu. Spielberg veit líka fullkomlega hvað virkar betur með svona myndir heldur en live-action myndir. Hasaratriðið í Afríku er eitt besta atriði ársins. Ekki nóg með það að það sé skemmtilegt, spennumikið og fyndið heldur er kvikmyndatakan ótrúleg. Það inniheldur eitt ótrúlegt skot sem helst út í rosalega langan tíma. Svona hlutir hefðu aldrei virkað eins vel hefði myndin ekki verið tölvugerð.

Húmorinn er frábær hvort sem það eru góðar línur eða líkamlegur húmor. Tilvísanir eru líka á mörgum stöðum í myndinni sem eingöngu þeir sem hafa lesið bækurnar fatta. Karakterarnir eru þar að auki vel samdir og sjaldan kemur lélegur brandari.

Spielberg setur rosalegt skemmtanagildi inn í þessa mynd. Hann veit nákvæmlega hvernig hún á að vera. Myndin flæðir vel, húmorinn er aldrei of langt í burtu og hún eyðir aldrei tíma í drama, enda passar það engan veginn við myndina. Þrátt fyrir að hann hefur gert betri ævintýramyndir þá er lítið hægt að segja hvað var að þessari mynd. Ég held að ég gangi svo langt að kalla þetta bestu ævintýra/sci-fi mynd sem Spielberg hefur gert síðan Minority Report.

Leikararnir passa fullkomlega, en þá er ég meira að tala um raddir og frammistöður heldur en útlit. Jamie Bell kemur með einhverja bestu útgáfu af Tinna sem ég hef séð. Í bókunum hefur hann nær alltaf verið annað hvort litlaus eða lent í skugganum af frábærum aukakarakterum. Hér er hann viðkunnanlegur, kemur með nokkrar mjög góðar línur og hefur sjaldan sem aldrei verið eins áhugaverður. Andy Serkis er frábær sem Kolbeinn Kafteinn. Hann hittir á allar réttu nóturnar og er langeftirminnilegasti karakter myndarinnar. Serkis er líka vel reyndur við að leika við svona tækni, og þetta er ekki í fyrsta skipti á árinu þar sem hann stelur myndinni sem tölvugerður karakter (Cesar í Rise of the Planet of the Apes). Daniel Craig stendur sig einnig vel sem illmennið í myndinni. Myndin hefur þar að auki tvo frábæra samleiki. Serkis og Bell smellpassa saman og Nick Frost og Simon Pegg, sem leika Skapta og Skafta, eru alltaf jafngóðir, þrátt fyrir takmarkaðan skjátíma, en þeir nýta hverja einustu sekúndu sem þeir hafa og enda sem frekar fyndnir karakterar. Það var samt frekar leiðinlegt að Vandráður var ekki í myndinni (en hann var fyrst kynntur í síðustu bókinni, Red Rackham’s Treasure).

Þeir sem hafa lesið bækurnar ættu að fá meira úr myndinni vegna nostalgíunnar sem myndin hefur, en líka vegna allra tilvísana og hversu trú myndin er sögunum í stíl, sjarma og einfaldleika. Þetta er besta afþreyingamynd ársins með Thor og Attack The Block.

8/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

25.03.2018

Tinni 2 enn á teikniborðinu

Steven Spielberg, leikstjóri Tinna myndarinnar sem frumsýnd var árið 2011, segist ekki vera búinn að slá hugmyndir um mynd númer 2 útaf borðinu. Tinni á fjölmarga aðdáendur hér á Íslandi sem vafalaust fagna þessum fr...

02.07.2016

Tinni 2 enn á dagskrá

Fimm ár eru nú liðin frá frumsýningu Tinna myndarinnar, The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn, og ekkert virðist bóla á framhaldsmynd, eða myndum. Þessari fyrstu Tinna mynd, sem Steven Spielberg leikstýrði, gekk nokku...

21.10.2012

Gollum gerir Animal Farm

Andy Serkis, sem leikur Gollum í Hobbit: An Unexpected Journey, og í Lord of The Rings myndunum, ætlar að leikstýra "performance capture" kvikmyndagerð á hinni frægu sögu George Orwell, Animal Farm, að því er The Hollywood Repo...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn