Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

Sucker Punch 2011

(Angel Wars)

Frumsýnd: 1. apríl 2011

Alice in Wonderland' with machine guns

110 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 22% Critics
The Movies database einkunn 33
/100

Baby Doll á afar illgjarnan stjúpföður sem lætur senda hana á geðveikrahæli. Þar á, innan aðeins nokkurra daga, að framkvæma á henni heilaskurðaðgerð sem mun eyðileggja allan persónuleika hennar. Innan veggja hælisins hittir hún fyrir nokkrar aðrar ungar konur, sem hjálpast að við að leita á náðir ímyndunaraflsins til að flýja kaldranalegan raunveruleika... Lesa meira

Baby Doll á afar illgjarnan stjúpföður sem lætur senda hana á geðveikrahæli. Þar á, innan aðeins nokkurra daga, að framkvæma á henni heilaskurðaðgerð sem mun eyðileggja allan persónuleika hennar. Innan veggja hælisins hittir hún fyrir nokkrar aðrar ungar konur, sem hjálpast að við að leita á náðir ímyndunaraflsins til að flýja kaldranalegan raunveruleika umhverfis síns. Baby Doll fær þá hugdettu að flýja sjálft hælið með hjálp fjörugs ímyndunarafls þeirra, og eftir nokkra baráttu fær hún þær með sér i að skipuleggja flóttann. Þegar áætlunin er sett af stað fara hins vegar mörkin milli ímyndunar og raunveruleika að verða æði óskýr, þar sem þær þurfa að berjast við alls kyns skrímsli og skuggaverur til að hafa uppi á þeim fimm hlutum sem þær þarfnast til að sleppa fyrir fullt og allt frá föngurum sínum. Sögusvið myndarinnar er sjötti áratugur síðustu aldar. ... minna

Aðalleikarar

Vonbrigði
Ég sá fyrst trailerinn fyrir Sucker Punch fyrir nokkrum mánuðum og verð að segja að þetta er bara einn svalasti trailer sem ég hef séð. Ég var ótrúlega spennt yfir þessari mynd með frábærum stelpum og geðveikum leikstjóra. Eftir að hafa séð myndina verð ég því miður að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með hana.

Myndin byrjar vel, hún er með öll elementin í góða mynd, það er erfið baksaga sögupersónunnar, geðveikrahæli með áhugaverðum persónum og flott tónlist. En fljótlega fer myndin að reyna að vera of mikið eins og leyfist mér að segja Inception með vídd inn í vídd inn í vídd. En ólíkt Inception verður áhorfandinn mjög ruglaður hér og fær í raun og veru enga útskýringu í endann.

Það er gaman að horfa á þessa mynd og maður er alveg spenntur á meðan, en endirinn er óútskýrður og það dregur myndina virkilega niður. Ég mæli ekki með þessari mynd fyrir þá sem voru spenntir fyrir henni því þeir verða bara fyrir vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ævintýri með dökkum undirtón
Myndin segir frá ungri konu sem sett er á geðsjúkrahús af stjúpföður sínum, sem hefur vægast sagt farið illa með fjölskyldu hennar. Í stað þess að vera geðsjúka stjúpdóttirin þá sér hún heiminn þannig að hún er munaðarlaus dansari í vændishúsi. Strax frá komu leggur hún á ráðin um flótta og fær í lið með sér nokkrar aðrar stúlkur á hælinu. Atburði myndarinnar sjáum við í gegnum framsetningu hugarheims hennar og áhorfandanum látið eftir að túlka hvað er að gerast í raunveruleikanum.

Sjónræn framsetning er ein af sterku hliðum Zack Snyder og mér fannst mjög áhugavert að sjá hann takast á við að búa til mynd sem er því sem næst ekkert nema myndlíkingar. Ég var mjög sáttur við útkomuna og því meira sem ég hugsa um þessa mynd eftirá því betri finnst mér hún. Og auðvitað klikkar Zack ekki á að hafa hasar atriðin ofur-svöl. Þetta er mynd sem hægt er að ræða lengi um og meira að segja titill hennar, Suckerpunch, sem í fyrstu hjómar bara til að trekkja að í hasarinn, hefur dýpri merkingu og tengingu inn í atburði hennar en maður áttar sig á í fyrstu. Frásagnarstíllinn og byrjun myndarinnar gaf tilfinningu fyrir því að um væri að ræða ævintýri, og eins og öll góð ævintýri þá hefur myndin undirliggjandi boðskap.

Fólk virðist hafa mjög skiptar skoðanir á þessarri mynd. En satt best að segja þá held ég að margir hafi hreinlega ekki skilið hvað þeir voru í raun að horfa á miðað við hvernig þeir rakka niður innihald hennar. Þá er ég aðallega að tala um þær gagnrýnisraddir sem heimta að myndin útskýri allt svart á hvítu í stað þess að tala undir rós og að þetta sé misheppnuð Inception eða Matrix eftirherma. Ég er ánægður með að hægt sé að koma mynd í gegn hjá Hollywood sem matar ekki allt ofan í áhorfandann og treystir honum til skilja vísbendingarnar sem hjálpa við að fylla inn í eyðurnar. Leti í fólki við slíkt er m.a. ástæðan fyrir því að hinir frábæru þættir Arrested Development voru teknir af dagskrá í USA. Hvað varðar líkingu við Inception og Matrix þá er myndin í fyrsta lagi ekki að búa til vídd inn í vídd, þetta eru mismunandi ímyndaðir heimar, einn er ekki inni í öðrum. Hér eru heimarnir ekki hluti af raun-sögusviðinu þar sem persónur get haft áhrif, heldur flóttaleið frá raunveruleikanum og það sem áhorfandinn sér er aðeins túlkun á hvað er í raun að gerast. Mér var frekar í huga myndir eins og Pan's Labyrinth og Brazil þegar ég var búinn að horfa á þessa mynd. Einnig segja sumir að vegna yfirkeyrðra hasar atriðana þá sé ekki hægt að flokka þetta sem alvarlega mynd, en við því ég segi bara: Afhverju ekki? Þetta gerir myndina bara góða á fleiri en einn hátt og myndin fær ákveðið nýnæmi við að blanda þessu saman.

Fyrir mér var þetta mjög vel heppnuð mynd sem virkilega sat í mér lengi eftir að ég kom út af henni, þar sem maður var stöðugt að átta sig á nýju hlutum í myndmálinu. Fyrir utan að það er sérstaklega áhugavert að kryfja hvernig hún endar. Ég gef þessarri mynd 9 af 10.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Frekar slöpp
Ég fór með nokkrum félögum mínum á þessa mynd sl. þriðjudag og það sem sannfærði mig á að fara á hana voru eitthverjir dómar hér á Íslandi up á 4 stjörnur. Ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum það er að sannast að tölvuteiknaðar myndir eru hreinlega annars flokks myndir jú tölvubrellurnar góðar og músíkin frábær en þegar maður fer í bíó í dag þá vill maður fá meira út úr myndinni en stórar byssur og sætar stelpur. Ég hefði ekki farið á þessa mynd nema að því að ég rakst á góða dóma. En ég ætla ekki að móðga neinn en þessi mynd er fyrir yngri áhorfendur en mig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Blautur draumur Snyders
Sumar bíómyndir eru einfaldlega bara tryllt svalar vegna þess að sögurnar bjóða upp á það, viljandi og óviljandi. Spennan þarf samt oftast að vera til staðar og persónur verða sömuleiðis að vera þess virði að halda upp á. Svo eru aðrar myndir sem bara demba sig beint út í "kúlið," án þess að taka tillit til þessara þátta. Þær halda að það sé bara nóg að troða öllu á skjáinn sem áhorfendum finnst gaman að sjá. Margir leikstjórar gera þessi mistök, og þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því að með þannig hugarfari verða myndir eins og Ultraviolet til.

Sucker Punch er sem betur fer ekki alveg svo léleg. Hún vill samt svo mikið vera eitursvala, lagskipta rússíbanareiðin í líkingu við The Matrix og Inception en hefur ekki hugmynd um hvað það var sem gerði þær svo góðar. Í stað þess að vera myndin sem þú heldur upp á er hún frekar þessi sem reynir fullmikið að þóknast þér með byssum, hávaða, kroppasýningum, brelluorgíum og ennþá meiri hávaða. Samanlagt erum við að tala um 30-40 mínútur samtals af hasar, og hann virkar á mann eins og lítið annað en uppfylling. Samt virðist þetta vera það eina myndin hefur áhuga á, og þýðir þetta að meira en klukkutími fer í óskipulagða sögu sem virkar LÍKA á mann eins og uppfylling. Ástæðan að hvort tveggja feilar er sú að myndin stendur sig merkilega illa í því að þræða saman fantasíuna við alvöru söguna svo það virki eins og þú sért að horfa á eina heild, en ekki MTV-útgáfuna af Girl, Interrupted með pásum þar sem þú ert staddur í hugarheimi myndasögu- og tölvuleikjanördans.

Zack Snyder leggur hellingsvinnu í það að sjá til þess að þetta sé eitthvað það svalasta sem þú hefur á allri þinni ævi séð. Hann fleygir bókstaflega öllu í þig sem hann finnur: vélmenni, uppvakninga, dreka, tröllvaxna samúræja með hrískotabyssu svo aðeins eitthvað sé nefnt. Myndin hefur auðvitað brjálæðislega flottan hasar hvað stíl og keyrslu varðar og tónlistarnotkunin við nokkrar senur er ansi öflug. Því miður verður manni samt fljótt sama um hasarinn sjálfan því hann er í raun furðu tilgangslaus. Hann speglar raunsöguna nánast ekkert og það drepur auðvitað alla spennu, sérstaklega þegar þú veist strax að þetta er allt saman ímyndun (sem er inni í annarri ímyndun!). Ég trúi ekki að mynd eins og Astrópía hafi náð betri efnislegri tengingu á aðalsögunni og fantasíusenum. Eitt-núll fyrir Gunnar B. Guðmunds býst ég við.

Senur sem gerast ekki í stílíseruðum fantasíuheimi eru oftast notaðar sem stökkpallur fyrir næstu ofbeldissenu. Það er ekki fyrr en hasarnum er lokið þegar myndin áttar sig loks á því að hún er að reyna að segja einhverja djarfa sögu með mikilvægum skilaboðum skelltum beint í smettið á þér. En sama hvað er á seiði hérna þá er ljóst að Snyder hefði átt að skrifa fleiri uppköst að handritinu. Það virðist einfaldlega ekki vera fullklárað. Asnalegast er samt hvað sagan þykist vera snjöll með því að segja dæmisögu inni í annarri dæmisögu. Þetta hefði getað opnað dyr að fleiri hugmyndum en því tækifæri er sóað. Þið skiljið hvað ég á við þegar/ef þið sjáið myndina, annars skiptir það svosem engu máli. Snyder reynir augljóslega að vera Christopher Nolan með því að koma með vísbendingar og pælingar sem eiga að gera annað áhorfið á myndinni ríkara, en hann nær bara ekki þeim hæðum því kúlið skiptir meira máli heldur en sagan. Ef Snyder er ósammála þessu þá er hann mun verri kvikmyndagerðamaður en ég áður fyrr hélt. Orð eins og persónusköpun virðist líka vera algjör latína í hans augum, allavega hér.

Álit mitt á þessum leikstjóra hefur farið talsvert lækkandi, og Sucker Punch gerir mig ekki beinlínis bjartsýnni gagnvart væntanlegu Superman-myndinni hans (þó ég efa ekki að útlitið verði til fyrirmyndar). Dawn of the Dead og 300 voru skemmtilegar en þær þjáðust örlítið fyrir einfaldleika en bættu það upp á öðrum sviðum. Watchmen er án efa hans eina mynd þar sem sagan hélst í fókus allan tímann og stílrúnkið betrumbætti heildina. Eftir hana gerði maðurinn skelfilega ómerkilega (en ógeðslega flotta) uglumynd og hér er hálfkláraða sagan á bakvið flottu umbúðirnar einungis afsökun til að hann geti fest blautan draum sinn á kameru. Vissulega myndi ég gefa hönnunardeildinni gott hrós ef hér væru um einhver frumlegheit að ræða, en ég fann þau bara hvergi. Leikstjórar sem hanna sín eigin skrímsli og umhverfi (eins og Guillermo Del Toro t.d.) myndu hlæja að Snyder fyrir að geta ekki betur en þetta. Hraðinn og brellunotkunin kemur beint frá honum, á meðan skrautið og fígúrurnar eru eins og eitthvað úr öðrum myndum, tölvuleikjum og líka Manga.

Ég get samt ekki lamið myndina of mikið niður því á vissan hátt er hún dálítið fersk. Ég get ekki annað en dáðst að henni smá fyrir að reyna eitthvað óhefðbundið sem maður sér ekki oft frá Hollywood. Ég myndi jafnvel kalla hana hugrakka hefði stúdíóið ekki skorið hana niður í PG-13 unglingamynd þegar blóðslettur, nekt og fleira gleðjandi hefði umhugsunarlaust gert ræmuna safaríkari. En burtséð frá því er ljóst að eitthvað mikið vanti upp á. Sucker Punch nær einungis því markmiði að vera töff þó svo að sjálfumgleði hennar skín svo hryllilega mikið í gegn. Þetta er þunn og ruglandi rúnkveisla sem vill vel og hefur góðar hugmyndir en skilar þeim ekki nógu vel frá sér. Jákvæðu stigin fara til leikranna (sem reyndu sitt besta), búninganna þeirra (Emily Browning í stuttu pilsi = HEITT), litanna (elska liti), brellnanna (eitt orð: brjálaðar!), ýmissa flottra sena (t.d. byrjunin og WWI bardaginn) og íslensku stelpnanna (Björk og ungfrú Torrini, sem áttu sitthvort lagið í myndinni).

Mjög blandaður pakki semsagt. Köllum þetta glansandi miðjumoð sem þú átt að sjá á stórum skjá ef þú skildir ákveða að svala forvitninni.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

23.12.2013

Vesúvíus gýs - Plakat úr Pompeii

Fyrsta plakatið úr stórslysamyndinni Pompeii er komið á netið. Áður höfðu tvær stiklur úr myndinni komið út. Plakatið er tilkomumikið og sýnir aðalleikarana Kit Harington (úr Game of Thrones) og Emily Bro...

03.12.2013

Umfjöllun: The Hunger Games: Catching Fire (2013)

Catching Fire fjallar um Katniss Everdeen sem er núna flutt í betra hverfið í umdæmi 12. President Snow  hefur ekki fyrirgefið Katniss fyrir að hafa verið með uppreisn í fyrri myndinni og til að ná sér niðri á henni ...

03.10.2012

Man of Steel verður raunsæ

Þessar fréttir koma sennilega fáum á óvart, a.m.k. ef maður kann að tengja saman tvo og tvo. Fyrsta stiklan fyrir nýju Superman-endurræsinguna gaf strax ofsalega kaldan og jarðbundinn tón, og þar að auki segir það...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn