Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Surrogates 2009

Justwatch

Frumsýnd: 2. október 2009

How do you save humanity when the only thing that's real is you?

88 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 37% Critics
The Movies database einkunn 45
/100

Surrogates gerist í náinni framtíð þar sem leti manna hefur náð algjöru hámarki. Í stað þess að vera úti og lifa lífinu er meirihluti fólks farinn að reiða sig á vélmenni sem eru mótuð eftir hverjum einstaklingi. Menn tengjast þessum vélmennum heima hjá sér og geta lifað lífinu í gegnum þau eins og þeir vilja án þess að finna fyrir t.d. meiðslum... Lesa meira

Surrogates gerist í náinni framtíð þar sem leti manna hefur náð algjöru hámarki. Í stað þess að vera úti og lifa lífinu er meirihluti fólks farinn að reiða sig á vélmenni sem eru mótuð eftir hverjum einstaklingi. Menn tengjast þessum vélmennum heima hjá sér og geta lifað lífinu í gegnum þau eins og þeir vilja án þess að finna fyrir t.d. meiðslum eða öðru sem getur þótt hættulegt. Það jákvæða við þessa tækni er að dánartíðni meðal fólks hefur minnkað allsvakalega. Lögreglumaðurinn Greer neyðist til að yfirgefa húsið sitt í fyrsta sinn í langan tíma eftir að vélmennið hans lendir í harkalegri árás. Hann er kallaður inn til að rannsaka óvenjulegt morð þar sem bæði vélmennið og stjórnandi þess voru drepin á sama tíma. Greer kafar dýpra inn í málið og kemst að því að morðinginn er með stærri áform en aðeins þetta eina morð.... minna

Aðalleikarar

Ágæt, en hefði getað verið miklu betri.
Enn ein framtíðarmyndin sem byggir á því að vélarnar eru búnar að taka yfir og í þessari mynd eru þær einnig búnar að taka yfir mannleg samskipti og nánd.

Surrogates eða Staðgenglar gerist í framtíðinni og segir frá því þegar mannfólkið getur keypt sér staðgengla til þess að sinna öllum daglegum störfum. Markmiðið með því virðist fyrst og fremst vera til að koma í veg fyrir glæpi, slys og fordóma. Yfir 90% jarðarbúa styðjast við svona staðgengla en hin 10% lifa í lokuðum hverfum innan borganna. Þeir vilja ekkert með staðgenglana hafa og blanda ekki geði við þá. Staðgenglarnir eru heldur ekkert að hætta sér inn á svæði mannfólksins. Willisinn leikur löggu sem er að rannsaka morð á staðgengli og manneskjunni sem átti þann staðgengil. Þegar staðgengill Willisins skemmist neyðist hann til að fara út á meðal fólks og þá verður voðinn vís.

Hugmyndin er svo sem ágæt en úrvinnslan slök. Það er svo lítið útskýrt og framvindan verður því barnaleg og einföld. Myndin tekur sig og hátíðlega. Hún heldur manni samt alveg við efnið en er alveg laus við spennu. Nokkur ágæt hasaratriði halda myndinni í meðalmennskunni. Ágætis mynd til að horfa á í DVD eða sjónvarpi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hrúga af klúðri
Hugmyndin að baki Surrogates er mjög sniðug en einhvernveginn náði afraksturinn ekki að heilla mig. Fínt að ætla sér að kvikmynda heim þar sem fólk getur tekið sér bólfestu í vélmennum og skipt síðan afur í original líkamann hvenær sem það vill en þá þarf myndin að hafa sál og mysteríu en Surrogates hefur hvorugt. Ég hefði viljað að hlutverk Bruce Willis væri bitastæðara, hann er bara ekkert góður hér. Hann leikur eins og hann nenni þessu ekki og bara dregur myndina niður. Nokkrir(ekki margir) góðir punktar í seinni partinum og boðskapurinn er einlægur en myndin er bara eitthvað svo dauð. Surrogates hefði getað orðið eftirminnileg vísindaskáldsaga en með þessu handriti og leik fór hún í ræsið. Fær eina stjörnu fyrir hugmyndina og boðskapinn. Virkilega sami leikstjóri og Terminator 3?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fín en auðgleymd Facebook-ádeila
Ég veit ekki með ykkur en þegar ég horfi á Surrogates þá ég sé einhvern veginn fyrir mér afrakstur þess ef að I, Robot og Ghost in the Shell myndu eignast afkvæmi. Reyndar, kaldhæðnislega, þrátt fyrir að hugmyndin sé ekki það frumleg þá er hún óneitanlega eitt það besta við þessa mynd, og maður þyrfti að vera að einhverju leyti sjón- eða heilalaus til að sjá ekki þá ádeilu á samfélagið sem hún er. Það er alls ekki slæmur hlutur, því boðskapurinn er mjög góður og kemst hann mjög vel til skila. Aðalgalli myndarinnar er samt sá að hún hraðspólar allt of mikið í gegnum nokkuð áhugaverðan söguþráð og eiginlega kastar öllu hugmyndafluginu í aftursætið. Eftir stendur alltof hröð (88 mínútur?!) og alveg merkilega standard framtíðarþriller sem liggur fullmikið á að koma augljósu skilaboðum sínum á framfæri í stað þess að bjóða upp á eitthvað sem fær mann til að hugsa og vilja melta.

Surrogates er að reyna að segja okkur það að við reiðum okkur einum of mikið á tæknina. Við búum til allt aðrar útgáfur af okkur, hvort sem það er í gegnum gemsana okkar, MSN, Facebook, spjallsíður eða fleira þvíumlíkt. Það er hellingur til í þessu. Til er fullt af fólki sem kynnist á netinu og á alfarið í samskiptum þar. Fólk lýgur um aldur sinn hægri og vinstri og heilu samfélögin af fólki "hittast" og spila online-leiki. Surrogates er ekkert annað en ýkt útgáfa af þessu. Fólkið í myndinni sendir "staðgenglana" sína út í lífið og situr í huggulegheitum heima í stofu stjórnandi þeim á meðan, lítandi út eins og Keith Richards. Ég verð samt að viðurkenna að boðskapurinn er aldrei *of* þvingaður. Hann er jú, augljós, en aldrei er handritið að predika yfir manni, þótt kannski sumar persónurnar geri það.

Það er margt mjög gott við þessa mynd. Í raun er svo margt gott hér að finna að ég er virkilega sár yfir að hún hafi ekki komið betur út yfir heildina. Söguþráðurinn er almennt áhugaverður og sem betur fer er myndin ekki að flýta sér að fara frá einum hasar til þess næsta. Frásögnin er hins vegar alltof hröð, sem veldur því að myndin fær mjög lítinn tíma til að anda. Það er smá vottur af persónusköpun, en ekki nógu mikill og það er m.a. eitthvað sem ég hefði viljað sjá meira af. Og vegna þess að myndin er í svona miklu flýti virkar hún meira þunn og ómerkileg fyrir vikið.

Það hefði verið fínt að fá einhvern eins og Akiva Goldsman, Lem Dobbs eða Andrew Niccol til að hjálpa til með handritið, vegna þess að John D. Brancato og Michael Ferris eru ekki réttu mennirnir til að sprauta einhverjum gáfum í handritið hérna. Ekki veit ég hver plön leikstjórans voru, en ef ég persónulega væri að gera framtíðarþriller sem hefur þegar fullt af skemmtilegum hugmyndum til staðar og nóg pláss eftir fyrir meira efnisinnihald þá myndi ég aldrei ráða mennina sem skrifuðu m.a. Terminator 3, CATWOMAN (!!) og Terminator Salvation. Þessar þrjár eiga til dæmis það sameiginlegt að koma sér beint að efninu (semsagt hasarnum) án þess að bjóða upp á eitthvað annað af miklu viti.

Jonathan Mostow getur verið fínn spennumyndaleikstjóri. Mér fannst Breakdown og U-571 virka mjög vel, og T3 skal ég alveg viðurkenna að hafi verið prýðileg ef litið er á hana sem hreinræktaða hasarmynd. Surrogates er samt eitthvað sem greinilega hefði þurft á meiri hugsjónarmanni að halda. Af hugmyndinni að dæma hefði þetta getað verið eitthvað í líkingu við Gattaca eða Minority Report (tvær myndir sem nota frekar heilann heldur en hnefana), svo aðeins eitthvað sé nefnt, en nei. Mér fannst líka stíllinn á þessari mynd vera alltof léttur og eitthvað svo leiðinlega litríkur, sem eiginlega passaði ekki. Mostow hefði alveg getað farið drungalegu leiðina með framtíðarútlit myndarinnar án þess að tapa PG-13 merkinu.

Bruce Willis fær samt auðvitað sama gamla hrósið. Hann er svalur (þ.e.a.s. þegar hann er EKKI með þessa ógeðfelldu hárkollu), í fínu formi og kann að fara með frasa sem fyrr. Aukaleikarar eru heldur ekki slæmir, og það er mjög fyndið að sjá hvað allir eru stífir í frammistöðu sinni, sem er auðvitað viljandi gert þar sem við erum að fylgjast með vélmennum þeirra. Í flestum tilfellum allavega

Surrogates hefði getað orðið að einhverju frábæru og flugbeittu, en því miður varð svo ekki og á endanum verður að segjast að myndin er talsvert bitlaus og auðgleymd. Þetta er samt prýðileg afþreyingarmynd sem rennur fljótt í gegn og kemur m.a.s. lúmskt á óvart sumstaðar. Ég get alls ekki sagt að mér hafi leiðst því ég vildi helst hafa hana miklu lengri. Þetta er einmitt eitt af þeim tilfellum þar sem ég vildi óska að það væri til Director's Cut-útgáfa, sem myndi innihalda auka 20-30 mínútur af söguþræði og persónusköpun. Það væri yndislegt, en ég efa að það rætist...

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn