Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er ljótt orðbragð

Ghost World 2001

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 14. október 2018

They're high school graduates, and the world's got hell to pay!

111 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 93% Critics
The Movies database einkunn 90
/100

Þetta er sagan af þeim Enid og Rebeccu eftir að þær klára miðskóla. Þær eiga báðar í erfiðleikum með að tengjast fólki og eyða tíma sínum í að slæpast og að stríða þeim sem þeim finnast óspennandi. Þegar þær kynnast Seymour, sem er utangarðs og elskar að safna gömlum 78 snúninga hljómplötum, þá breytist líf Enid til frambúðar.

Aðalleikarar


Ghost World er ein af þessum myndum sem ég get alltaf horft á. Ég held að það eigi allir nokkrar þannig myndir, einskonar happy place. Ég gæti bætt við í flokkinn t.d. Jackie Brown, Die Hard, True Romance, The Matrix, Napoleon Dynamite, Fight Club, Once Upon a Time In The West, Back To The Future, Rocky IV og svo framvegis. Anywho.. Ghost World er gerð eftir teiknimyndasögum Daniel Clowes. Það er erfitt að segja um hvað myndin fjallar beint. Eiginlega bara samskipti og samband nokkurra ólíklegra einstaklinga. Steve Buchemi er í einu af sínum bestu hlutverkum í myndinni sem plötusafnarinn Seymour. Thora Birch leikur aðalhlutverkið, þ.e. pínu skrítna stelpu sem kynnist Seymour. Í mínum huga er þetta myndin sem kom Scarlett Johansson á kortið. Henni hefur tekist mun betur að koma sér áfram en Birch, hvar hefur hún eiginlega haldið sig?

Þessi mynd er stútfull af fyndnum persónum og skemmtilegum samræðum. Maður þarf bara að nefna redneck gaurinn í bensínstöðinni eða speisaða listakennarann. Horfið bara á trailerinn. Það er lag í þessari mynd sem ég leitaði uppi og hef hlustað á milljón sinnum síðan. Devil Got My Woman eftir Skip James, fæ ekki nóg af því. Eru fleiri en ég þarna úti sem elska þessa mynd? Þeir sem ekki hafa séð hana, drífið í því!

„Well, I have to admit that things are really starting to look up for me since my life turned to shit.“
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Ég ætla að byrja á því að skamma íslenska kvikmyndahúsaeigendur fyrir að sýna ekki þessu frábæru kvikmynd. Ég veit ekki hver ykkar ber ábyrgð á þessu en á meðan þið getið sýnt drasl eins og Snow Dogs þá hlýtur að vera pláss fyrir svona gullmola, þó ekki væri nema í litlu sölunum. Ghost World er byggð á samnefndri sígildri neðanjarðarmyndasögu eftir Daniel Clowes, og segir frá vinkonunum Enid (Thora Birch) og Rebeccu (Scarlett Johansson). Þær er nýskriðnar út úr menntó og eru að þreifa fyrir sér í lífinu og ákveða hvað þær vilja gera í málinu. Báðar eru frekar þroskaðar og með illkvittinn húmor, og þessi samblanda leiðir þær til kynna við nördinn Seymour (Steve Buscemi). Seymour safnar gamalli tónlist á vínylplötum og Enid fær áhuga á honum sem manneskju, ekki bara aumlegum manngarmi. Leikstjórinn Terry Zwigoff (sem gerði hina frábæru heimildarmynd Crumb) hefur gert mynd sem er frábærlega skemmtileg á að horfa og er full af vel skrifuðum samtölum. Thora Birch er hreint út sagt frábær sem Enid og færir sig upp í flokk alvöru leikkvenna líkt og Christina Ricci gerði með The Opposite of Sex. Johansson er góð sem hin alvörugefna Rebecca, og dópistinn Brad Renfro á góða spretti sem vinur þeirra (senurnar í búðinni þar sem hann vinnur eru frábærar). En það er Buscemi sem á þessa mynd. Hann hefur alltaf verið frábær en aldrei jafn góður og hér. Ég hreinlega skil ekki af hverju hann fékk ekki Óskarstilnefningu sem besti aukaleikari; hann var a.m.k. betri en Ethan Hawke!! Leikararnir og handritið eru stjörnurnar hér og hver sá sem þykist hafa gaman að virkilega góðum myndum hreinlega verður að sjá Ghost World. Tékkið líka á tónlistinni, hún svíkur engan.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Buscemi brillerar!
Synd að þessi litla perla hafi ekki látið sjá sig í kvikmyndahúsum hér á klakanum. Allavega hikaði ég ekki við að leigja hana seinast þegar ég skrapp á leiguna, og sá ekki eftir því.

Með aðalhlutverkin fara þær Thora Birch (úr American Beauty) og Scarlett Johansson (eftirminnilegust úr Coen-myndinni The Man Who Wasn't There). Þetta eru ekki beint mjög vel þekkt nöfn en ég efa það ekki að þau munu vera það í náinni framtíð. Þessar stúlkur eru óaðfinnanlegar í sínum hlutverkum. Svo lætur Steve Buscemi sjá sig í einu hlutverkinu, og er í einu orði sagt stórkostlegur (og var að sjálfsögðu rændur Óskarsstyttunni sem hann átti skilið).

Það sem var svo frábært við þessa mynd var hversu vel hún nær að halda uppi traustri afþreyingu án þess að láta manni nokkurn tímann leiðast, og gerir það með frábærum og skondnum samtölum, skemmtilegum og litríkum persónum sem keyra söguna. Myndin fjallar í stuttu máli um tvær vinkonur, Enid (Birch) og Rebeccu (Johansson), sem hafa nýlokið við menntaskólanámið, þær vilja ekki fara í framhaldsnám. Þær hafa í staðinn bara ákveðið að leigja sér íbúð og fá sér vinnu. Enid gengur mjög illa í að fá sér vinnu en á meðan leitinni stendur kynnist hún Seymour (Buscemi), feimnum tónlistardýrkanda. Böndin styrkjast á milli þeirra en aftur á móti dragast vinkonurnar frá hvor annari. Málin flækjast svo enn meira eftir að Seymour fær sér loks unnustu.

Birch og Buscemi verða að þungamiðju myndarinnar og er persónusköpun þeirra virkilega vel meðhöndluð. Það var hins vegar Johansson sem var algjörlega skilin útundan (rétt eins og persóna hennar var "dissuð" af bestu vinkonu sinni í myndinni). Ég hefði a.m.k. viljað sjá meira af henni þar sem Rebecca skipti sögunni ekki minna máli en Enid.

En þegar öllu er á botninn hvolft er Ghost World stórgóð lítil mynd sem er þess virði að líta á.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Myndin byrjar þegar vinkonurnar Enid (Thora Birch) og Rebecca (Scarlett Johanson) útskrifast úr high school og lífið blasir við. Hvorug þeirra ætlar sér í framhaldsnám heldur ætla þær að fara út á vinnumarkaðinn og leigja svo saman íbúð. Þó svo að þær hafi verið óaðskiljanlegar í skólanum byrja þær að þroskast í sitt hvora áttina. Rebecca fer hina hefðbundnu leið, fær sér vinnu og vinnur markvisst að flytja út úr foreldrahúsum. Enid á hinn bóginn virðist ráðvillt og lendir hún í einskonar sambandi við sér eldri mann. Þessi maður er hinn óframfærni, jassáhugamaður Seymour (Steve Buscemi). Enid gengur illa að halda vinnu, fer í kvöldskóla að læra myndlist og heldur áfram að búa í föðurhúsum. Og eftir því sem Enid og Rebecca fjarlægjast hvor aðra minnka möguleikarnir að þær nái saman aftur.... Það er eitthvað öðruvísi en samt heillandi við þessa mynd sem gerir hana að því sem hún er, með öðrum orðum sjáðu þessa!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn