Leonardo DiCaprio fer með hlutverk í níundu kvikmynd Tarantino

Óskarsverðlaunaleikarinn Leonardo DiCaprio mun fara með hlutverk í nýjustu kvikmynd Quentin Tarantino sem verður frumsýnd á næsta ári. Um er að ræða níundu kvikmynd Tarantino sem mun fjalla um bandaríska glæpamanninn Charles Manson og hina svokölluðu Manson-fjölskyldu.

Staðfest er að DiCaprio muni ekki fara með hlutverk Manson í myndinni heldur muni hann leika gamlan leikara sem hefur átt betri daga í bransanum. Saga leikarans verður aðalsaga myndarinnar en voðaverk Manson-fjölskyldunnar spinnast svo inn í söguna.

Manson og fylgjendur hans myrtu níu manns á aðeins fimm vikum sumarið 1969. Árið 1971 var hann sakfelldur fyrir að fyrirskipa morðin á sjö manns en þeir sem voru drepnir voru leikkonan Sharon Tate og fjórir aðrir á heimili leikkonunnar. Daginn eftir voru svo hjónin Leno og Rosemary Labianca myrt.

Manson lést þann 19. nóvember síðastliðinn, 83 ára að aldri, eftir að hafa eytt nán­ast öll­um full­orðins­ár­um sín­um í fang­elsi.

DiCaprio og Tarantino hafa áður unnið saman en leikarinn fór eftirminnilega með hlutverk Calvin Candie í kvikmyndinni Django Unchained árið 2012. Leikarinn sást síðast á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni Revenant og fékk hann bæði Golden Globe- og Óskarsverðlaun fyrir leik sinni í myndinni.