Kona birtist þegar ljósið fer – Stikla

Ný hrollvekja úr smiðju James Wan, Lights Out, er væntanleg í bíó í sumar hér á landi, nánar tiltekið 20. júlí nk. Wan er framleiðandi að þessu sinni, en eins og við sögðum frá í gær leikstýrir hann sjálfur The Conjuring 2 sem kemur mánuði fyrr í bíó.

lights

Eins og sést í nýrri stiklu fyrir myndina, sem var að koma út, þá fær Lights Out hárin til að rísa, enda fjallar hún um það sem margir eru einmitt svo hræddir við, þ.e. myrkrið, en í hvert skiptið sem söguhetjur myndarinnar slökkva ljósið, þá birtist hrollvekjandi kvenvera.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Myndin fjallar um Martin og eldri systur hans Rebecca. Bæði sjá þau alltaf þegar ljósin eru slökkt, konu í myrkrinu. Þau byrja að rannsaka þetta furðulega fyrirbæri og komast að því að þetta hefur eitthvað með dularfullan atburð úr fortíð móður þeirra að gera, sem nærist á ótta þeirra sem það ásækir.

Eftir því sem þau skoða þetta nánar því betur verður þeim ljóst að þau eru öll í lífshættu, því eitthvað kemur og sækir þau  – eins og þú getur getið þér til um – þegar ljósin verða slökkt.