Kona þekur sig Twilight-húðflúrum

Lengi hefur þekkst að aðdáendur vissra kvikmynda, bóka, íþróttaliða eða sjónvarpsþátta láti húðflúra sig til heiðurs þess sem þau halda hvað mest upp á. En hin 49 ára gamla Cathy Ward hefur tekið það skrefinu lengra, en nýlega lét hún þekja bakið á sér húðflúrum til heiðurs Twilight myndanna.

„Vinkona mín leigði fyrstu myndina á DVD og lét mig hafa hana. Ég varð strax heltekin og keypti strax allar myndirnar sem og bækurnar. Ég vildi fá mér lítið húðflúr til að minnast þess að Twilight hjálpaði mér á erfiðu tímabili í lífi mínu, en það breyttist í það sem ég er með á bakinu núna.“ sagði Cathy í nýlegu viðtali, en húðflúrið, sem má sjá hér fyrir neðan, tók einar 22 klukkustundir að klára og kostaði rúmlega 3000 dollara.

Cathy er fjarri því að vera búin, en hún safnar nú 3000 dollurum í viðbót. „Það þarf enn að klára suma parta, og svo vil ég þekja báða handleggina mína fyrir 50 ára afmæli mitt í sumar. Ég elska Robert Pattinson og vil koma mér í form til að setja andlitið á Edward á magann minn“. Áætlar hún að hún þurfi að sitja undir nálinni í minnsta lagi 12 klukkustundir í viðbót.

– Bjarki Dagur

Til Hamingju með lífið, Cathy Ward