Joker orðin arðbærasta teiknimyndasögukvikmynd allra tíma

Joker, eftir Todd Philips, með Joaquin Phoenix í aðalhlutverkinu, er, samkvæmt vef Forbes, orðin arðbærasta kvikmynd allra tíma sem gerð er eftir teiknimyndasögu.

Hlær alla leið í bankann.

Tekjur myndarinnar af sýningum á heimsvísu nema nú 953 milljónum bandaríkjadala. Hagnaðurinn er mikill, því kostnaður við gerð myndarinnar var einungis 62,5 milljónir dala.

Til samanburðar má geta þess að önnur vinsæl ofurhetjukvikmynd gerð eftir teiknimyndasögu, Venom, var með tekjur upp á 854 milljónir dala af sýningum um allan heim, og kostnað upp á 90 milljónir dala. Þá námu heildartekjur Deadpool af sýningum í bíó á heimsvísu 783 milljónum dala, en myndin kostaði 58 milljónir dala.

Þessu til viðbótar er Joker arðbærasta bannaða kvikmynd allra tíma.