Jason snýr aftur 2017

friday-17Svo virðist sem ný „Friday the 13th“ mynd muni líta dagsins ljós á þessu ári en nýtt plakat er komið á IMDB og leikstjóri skráður; Breck Eisner. Síðasta kvikmynd hans var „The Last Witch Hunter“ (2015) þar sem Ólafur Darri lék hlutverk. Væntanlega myndin mun njóta þeirrar flottu sérstöðu að vera sú þrettánda í röðinni en svo virðist sem um enn eitt upphaf á sögunni sé að ræða frekar en beint framhald. Engar aðrar staðfestar upplýsingar er að finna að svo stöddu en fagnaðarefni fyrir unnendur myndabálksins að Jason Voorhees birtist aftur á hvíta tjaldinu.

Í tilefni dagsins er hér rifjuð upp merkileg tilurð fyrstu myndarinnar.

 

Góð auglýsing er gulls ígildi

Árið 1979 fékk kvikmyndaleikstjórinn Sean S. Cunningham þá hugmynd að gera hryllingsmynd í ljósi þess að ein óháð kvikmynd, Halloween (1978), rakaði inn seðlunum þrátt fyrir óvenju lágan framleiðslukostnað. Það var hart í ári hjá leikstjóranum, sem aðeins hafði leikstýrt þremur ljósbláum myndum og tveimur fjölskylduvænum og engin þeirra hafði vakið mikla athygli. Hann hafði smá reynslu af hryllingsmyndagerð þar sem hann var framleiðandi The Last House on the Left sem leikstjórinn Wes Craven gerði árið 1972.

friday-aulysing

Í samvinnu við vin sinn, framleiðandann og klipparann Steve Miner, ákvað Cunningaham að auglýsa í tímaritinu Variety International gerð kvikmyndarinnar Friday the 13th í von um að fá fjárfesta. Ástæðan fyrir nafninu var sú að þeim fannst þetta grípandi titill og í ljósi velgengni „Halloween“ var gripið til ákveðinnar dagsetningar sem allir þekktu. Þeir höfðu enga hugmynd um hvort þeir mættu nota titillinn og ákváðu því að láta auglýsinguna flakka og ef enginn lögfræðingur hefði samband þá væri það allt í góðu.

Kvikmynd komin á laggirnar en engin saga

Engin saga var komin á bak við titilinn. Aðeins var búið að ákveða að hópur táninga yrðu myrtir en eftir átti að fylla í eyðurnar. Þann 4. júlí árið 1979 birtist auglýsingin í Variety International og viðbrögðin voru bara jákvæð. Enginn kærði, heldur þvert á móti settu margir áhugasamir fjárfestar sig í samband við Cunningham og vildu taka þátt í ævintýrinu. Á mettíma voru þeir félagar byrjaðir að undirbúa kvikmynd og næstu vikurnar fóru í að sjóða saman handrit en þar naut Cunningham aðstoðar frá handritshöfundinum Victor Miller sem hann hafði unnið með áður. Sagan varð sú að ungmenni sem voru að undirbúa sumarbúðir til enduropnunar myndu verða myrtir á hrottlegan hátt.

friday-crystal-lake-2

Cunningham hafði safnað saman 500.000 dollurum og hafist var handa við „ógnvænlegustu myndina sem búin hefur verið til.“  Þann 9. maí árið 1980 var Friday the 13th frumsýnd og hún sló í gegn. Hún var aðsóknarmesta hryllingsmynd það árið og ekki leið á löngu þar til farið var að undirbúa framhald. Hryllingsmyndir voru mjög vinsælar í lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda og stóru kvikmyndaverin í Hollywood vildu fá sinn skerf af kökunni. Halloween var óháð framleiðsla en Friday the 13th fékk kvikmyndarisann Paramount Pictures á bak við sig.

Síðan eru liðin 37 ár og enn verið að framleiða framhöld (eða ný upphöf) af mynd sem á upphaf sitt að rekja til auglýsingar sem menn hentu fram í von um að fá að gera eina litla mynd og koma sér á kortið.