Iron Fist fyrsta ljósmynd og kitla

Marvel ofurhetjan Iron Fist er á leið á Netflix, en streymisveitan hefur nú birt stutta kitlu þar sem frumsýningardagur er tilkynntur auk þess sem birt hefur verið fyrsta ljósmynd úr þáttunum.

Myndin er hér fyrir neðan, en þar má sjá aðalleikarann, Game of Thrones stjörnuna Finn Jones, í hlutverki sínu sem milljarðamæringurinn Danny Rand, öðru nafni Iron Fist,  með járnhnefann á lofti:

Finn Jones in Iron Fist

Iron Fist þættirnir munu verða 13 talsins og hver þeirra einn klukkutími að lengd, en þættirnir munu allir verða aðgengilegir í einu og því hægt að hám-horfa á þá alla í einni striklotu.

Í þáttunum snýr Danny Rand aftur til New York, 15 árum eftir að hann var talinn af í flugslysi. Hann reynir að tengjast aftur fortíð sinni og hittir nokkra óvini, sem fá að kenna á Kung-Fu hæfileikum hans og ofurkröftum Járnhnefans, en Rand fær ofurhnefa með því að setja hendina inn í bráðið drekahjarta.

Aðrir helstu leikarar eru Jessica Henwick  í hlutverki Colleen Wing, David Wenham sem Harold Meachum, Jessica Stroup sem Joy Meachum o gTom Pelphrey sem Ward Meachum. Carrie-Anne Moss er lögfræðingurinn Jeri Hogarth en hún lék það hlutverk einnig í Marvel þáttunum Jessica Jones og Daredevil.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan en í henni kemur fram frumsýningardagurinn, 17. mars 2017.

Hér fyrir neðan er svo fyrsta kitlan úr þáttunum sem frumsýnd var á Comic Con í San Diego sl. sumar: