Harrison Ford snýr aftur sem Indiana Jones – Verður Connery með?

Bandaríski leikarinn Harrison Ford segist reiðubúinn að setja aftur upp hattinn og taka svipuna af hillunni, í fimmtu myndinni um fornleifafræðinginn Indiana Jones.

Ford, sem orðinn er 68 ára gamall, segir að þeir George Lucas framleiðandi og Steven Spielberg leikstjóri, séu með þetta í undirbúningi.

Ford segir: „Ef það er eitthvað sem við þrír getum verið sammála um, þá er ég til í tuskið. George er að vinna að einhverju en ég hef ekki enn séð neitt á pappír. Við höfum rætt þetta lítillega. Þetta myndi verða mjög gaman, og ég væri meira en til í að gera þetta.“
Nýlega var sagt frá því að Harrison væri að reyna að draga skoska stórleikarann Sean Connery inn í verkefnið, en Connery er sestur í helgan stein. Connery myndi þá leika föður Indiana Jones, rétt eins og í Indiana Jones and the Last Crusade frá árinu 1989.

Heimildarmaður segir: „Það vilja allir fá Sean aftur sem Prófessor Henry Jones eldri. Þeir vildu líka fá hann í síðustu mynd. Það vonast allir til þess að hann samþykki að koma, þó ekki væri nema í lítið hlutverk. Ég hef heyrt að Harrison Ford hafi verið að senda honum gjafir til að reyna að sannfæra hann. Ég held að hann gæti verið til í þetta, ef það yrði á hans forsendum.“