‘Hvítur, hvítur dagur’ til Rotterdam

Hvítur, hvítur dagur, næsta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hefur verið valin til þátttöku á CineMart, samframleiðslumarkaði hinnar virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíðar í Rotterdam í Hollandi. Hvítur, hvítur dagur, sem er nú í þróun, er aðeins eitt af 16 verkefnum sem var valið úr tæplega 400 umsóknum. Markaðurinn mun fara fram samhliða kvikmyndahátíðinni í Rotterdam frá 28. – 31. janúar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Á CineMart gefst aðstandendum tækifæri til þess að kynna verkefnið ýmsu fagfólki úr kvikmyndabransanum með það fyrir augum að taka næsta skref í sköpunarferli og finna fjármögnunaraðila.

Hvítur, hvítur dagur segir frá ábyrgum föður; ekkli og lögreglustjóra lítils sjávarþorps sem hefur verið frá starfi síðan eiginkona hans hvarf fyrir tveimur árum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og fjölskyldu þar til hann byrjar að gruna mann í þorpinu um að tengjast hvarfi konu hans. Með tímanum breytist grunur hans í þráhyggju sem óhjákvæmilega bitnar á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um hefnd, sorg og skilyrðislausa ást.

Myndin er með vilyrði fyrir framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og er áætlað að tökur hefjist í júlí árið 2018.

Fyrstu kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hinni dönsk/íslensku Vetrarbræðrum, hefur gengið mjög vel síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss. Þar vann hún fjögur verðlaun og hefur alls unnið sex alþjóðleg verðlaun, ásamt því að hljóta góða dóma hvarvetna.