Gagnslaus fjarki

Á svona stundum er ótakmarkað hversu oft er hægt að hringhvolfa augunum til að koma því til skila að sumt á einfaldlega bara að láta í friði. Síðast þegar ég vissi þá voru þeir Indiana Jones og Jack Sparrow búnir að undirstrika það með klúðurslegum endurkomum að oft er betra þegar þrennt er. Þetta gildir sérstaklega um þríleiki sem líta út fyrir að pakka sínum græjum saman eftir lokalotuna. Stundum er sagan bara búin, en Hollywood-maskínan áttar sig auðvitað sjaldan á því hversu virðulegt og kúl það er að hætta á toppnum. Þess vegna liggja þeir yfir framhalds- eða endurræsingarhnappinum þangað til fólk fær leiða á því sem það naut til botns áður. Ég er einmitt mikill aðdáandi Bourne-myndanna þriggja og ef ég á að segja eins og er þá langaði mig rosalega til að taka þessa nýjustu í sátt.

The Bourne Legacy er svo sem langt frá því að vera illa unnin bíómynd. Leikararnir leggja allt á sig, myndatakan er góð, hasarinn fínn og mér finnst einnig athyglisvert að sjá hvernig handritið gefur skít í hlutlausa áhorfendur og ætlast í staðinn til þess að allir hafi séð hinar myndirnar til að geta fylgt þessari án þess að vera með ruglaðan hausverk. Ef þú hefur ekki séð neina Bourne-mynd þá er skylda að hita upp Legacy með þriðju myndinni, þar sem þær gerast á sama tíma, en til að þriðja myndin skýrist miklu betur er helst þörf á því að þekkja hinar tvær. Ég skil þess vegna ekki alveg handa hverjum þessi mynd er. Hún gengur ekki upp sem endurræsing og ef menn eru Bourne-unnendur þá sé ég ekki betur en að þeir verði rauðir og áttavilltir í framan eftir þessa. Ef þeir eru þá ekki sofnaðir.

Kostir myndarinnar breytast í stórfurðulegan pirring þegar neikvæðu þættirnir vinna svona gegn þeim, því sama hversu góðir leikararnir eru, þá er handritið svo spennusnautt, teygt, þurrt, hefðbundið og óathyglisvert að fyrirmyndarleikarar eins og Jeremy Renner, Rachel Weisz og Edward Norton verða ótrúlega vannýttir. Myndina skortir púlsinn sem hinar þrjár höfðu. Það finnst mér vera stærsti og alvarlegasti gallinn.

Með betri söguþræði, þéttara flæði og ferskari atburðarás hefði maður líklegast fengið það sem maður borgaði fyrir (eins gott að ég borgaði ekki). Í staðinn er þetta bara eins og langur, sallarólegur spennuþáttur sem vekur upp déjà-vu minningar af fyrstu myndinni. Legacy er líka lengsta myndin af öllum fjórum og það fer hvergi fram hjá aðdáendum því hún eyðir þvílíkt miklum tíma í annaðhvort ekki neitt eða alls konar óspennandi hluti. Hún er heillengi að drulla sér í gang og svo þegar það loksins gerist þá skellir hún sér aftur í hlutlausan gír, stuttu síðar, eftir að besta hasaratriðinu er lokið. Hún skríður svo áfram í smátíma og eftir ágætiseltingarleik í lokin byrjar síðan klassíska Moby-lagið að spilast og myndin er skyndilega bara … búin!

Þetta er ein af tilgangslausustu myndum ársins 2012. Ekki grútléleg en samt frústrerandi mynd sem ristir grunnt og mér sárnar við þá tilhugsun að nú hefur bæst við fatlað eintak í þessa stórfínu bíóseríu.


  (4/10)