Frumsýning: Life of Pi

Sena frumsýnir myndina Life of Pi á næsta föstudag, þann 21. desember.

Life of Pi er gerð eftir samnefndri metsölubók Yann Martels og segir sögu af ungum Indverja, Piscine „Pi“ Patel, sem lendir í heldur betur óvenjulegum aðstæðum úti á rúmsjó.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:


Í tilkynningu frá Senu kemur fram að myndin þyki mikið meistaraverk: „Life of Pi hefur fengið frábæra dóma og þykir mikið meistaraverk, ekki bara leikstjórnin og sagan heldur kvikmyndagerðin öll, þar með talin tónlistin, kvikmyndunin, sviðssetningin og einstakar tæknibrellurnar. Þetta er töfrandi ævintýri sem allir þurfa að sjá.“

Söguþráður myndarinnar er á þessa leið: Í upphafi myndarinnar kynnumst við Piscine þegar hann er orðinn eldri og er að segja blaðamanni einum sögu sína. Snemma á áttunda áratugnum ákváðu foreldrar Piscines að flytja frá Indlandi til Kanada í von um betra líf. Fjölskyldan átti dýragarð og ákvað að taka dýrin með í ferðina enda lifibrauð þeirra og von um að koma undir sig fótunum í fyrirheitna landinu. Svo illa vildi hins vegar til að skipið sem þau voru á sökk úti á reginhafi í miklu óveðri. Allir fórust nema Piscine, órangútan, hýena, sebrahestur og stórt tígrisdýr sem hét Richard Parker. Piscine og dýrunum tókst við illan leik að komast í björgunarbát, en eins og hver og einn getur getið sér til voru vandræðin rétt að byrja.

Myndin er sýnd í þrívídd sem gerir upplifunina enn stórfenglegri.

Fróðleiksmolar til gamans: 

  • Life of Pi kom út hér á landi árið 2005 í snilldarþýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Þetta er ein af þeim sögum sem menn héldu að væri varla hægt að kvikmynda, en það hefur nú rækilega verið afsannað.
  • Myndin er tilnefnd til þriggja Golden Globe verðlauna m.a. sem besta mynd ársins og besti leikstjóri ársins.
  • Life of Pi er fyrsta alþjóðlega stórmyndin sem frumsýnd er á Sauðárkróki í mörg ár!

Life of Pi er jólamynd Senu í ár og er frumsýnd á Íslandi á föstudag í eftirfarandi kvikmyndahúsum: Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Kringlunni, Egilshöll, Akranesi og Borgarbíó Akureyri og á Sauðárkróki.