Leikstjóraútgáfa af Exorcist III á Blu

Leikstjóraútgáfa af „Exorcist III“ (1990) er væntanleg á Blu-ray og fyrir unnendur myndarinnar eru það stórtíðindi. Það er þó skýrt tekið fram að myndefnið sem fór forgörðum á sínum tíma er í misjöfnu ástandi og því hæpið að hver rammi verði í blússandi háskerpu. Myndefninu hefur verið púslað saman til að það nálgist sem best upprunanlega sýn leikstjórans.

Exorcist Blu

William Peter Blatty, höfundur upprunalegu „The Exorcist“,  skrifaði bókina „Legion“ sem var beint framhald fyrstu myndarinnar og fjallaði um leit lögreglunnar að fjöldamorðingja og á einhvern hátt tengdust atburðirnir særingu hinnar 12 ára gömlu Regan í „The Exorcist“ (1973). Löngu eftir að „Exorcist II: The Heretic“ (1977) var talin hafa þurrkað út alla möguleika á fleiri myndum í seríunni var ákveðið að hrinda í fræmkvæmd framleiðslu á „Legion“ og á endanum ákvað Blatty sjálfur að leikstýra myndinni.

Exorcist Legion

Framleiðendur myndarinnar tóku smám saman völdin frá Blatty sem var tilneyddur til að gera alls kyns breytingar sem honum voru ekki að skapi. Meðal annars var það fyrirskipað að myndin héti einfaldlega „Exorcist III“ til að áhorfendur vissu örugglega að um framhald væri að ræða og svo var Blatty tilneyddur til að kvikmynda særingu til að réttlæta titilinn og valda ekki vonbrigðum hjá þeim sem bjuggust við slíkum viðburði. En staðreyndin var sú að bókin innihélt enga særingu og það var aldrei ætlunin að hafa slíka með. Áherslan var frekar á hugmyndina um sanna illsku og hvernig hún sameinaðist áætlunum skapara okkar með mannkynið. Mögulega þótti framleiðendum myndarinnar þessar pælingar of háfleygar og vildu hafa söguþráðinn ögn einfaldari.

Exorcist Scott

Þeir sem hafa séð myndina vita að særingin er á skjön við allt sem á undan hefur gengið og margir lausir endar eru í ráðgátunni sem kynnt er í upphafi. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að „Exorcist III“ er í hávegum höfð hjá mörgum hryllingsmyndaunnendum og hún er að mörgu leyti mjög vel unnin og ógnvekjandi.

Exorcist særing

Það verður því mjög áhugavert að sjá hvaða myndefni hefur tekist að grafa upp og hvernig myndin lítur út í leikstjóraútgáfu. Meðal leikenda eru George C. Scott, Brad Dourif og Jason Miller. Útgáfudagur er í október.