Ris og fall vídeóspólunnar

óliÞjóðfræðingurinn Óli Gneisti Sóleyjarson hefur hafið söfnun á hópfjarmögnunarsíðunni Karolina Fund fyrir nýrri og áhugaverðri heimildarmynd sinni Vídeóspólan.

Í kynningu fyrir myndina á söfnunarsíðu hennar segir að myndin muni „fjalla um ris og fall vídeóspólunnar á Íslandi og þá menningu sem skapaðist í kringum hana, deilurnar sem hún olli og breytingunum sem urðu vegna hennar. Fjallað verður videoleigurnar, sjóræningjaútgáfurnar, kapalsjónvarpið og svo margt fleira.“

vidjótar

Óli Gneisti segir um verkefnið: „Þetta er ferðalag frá landi þar sem það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum eða í júlí til lands sem er beintengt umheiminum.“

Og einnig: „Ég hef lengi verið heillaður af tengslum menningar og tækni – það hvernig tækni mótar og breytir menningu okkar.

Þegar myndbandstæknin hóf innreið sína á Íslandi var samfélagið allt annað en það er í dag. Það átta sig ekki allir á hve miklar deilur fylgdu tækninni. Fyrstu árin var mikið tekist á um meinta sjóræningjastarfsemi af ýmsu tagi. Þá hafði fólk miklar áhyggjur ofbeldi í kvikmyndum og voru jafnvel kvikmyndir sem í dag teljast klassískar settar á bannlista og gerðar upptækar. Síðan fylgdi klámið auðvitað með.“

Á síðunni segir að myndin muni byggjast mest á viðtölum og ljósmyndum.

Það er óhætt að hvetja fólk til að gefa þessu gaum, enda um stóran þátt í bíó- og afreyingarmenningu nýliðins samtíma að ræða.