Bresk viðbót í Wolverine 3

richard e. grantTveir nýir leikarar hafa verið ráðnir í þriðju Wolverine myndina; Bretarnir Richard E. Grant og Stephen Merchant, sem þekktur er m.a. fyrir samstarf sitt við grínistann Ricky Gervais.

Grant verður þorpari, einskonar brjálaður vísindamaður, en fyrir í myndinni í hlutverki aðal illmennis er Boyd Holbrook.  Persónu Holbrook er lýst sem áköfum, kröfuhörðum og lífshættulega gáfuðum öryggisstjóra alþjóðlegs fyrirtækis.

Um hlutverk Merchant er ekkert vitað að svo stöddu.

Söguþráður myndarinnar er enn á huldu, en sögusagnir herma að myndin sé gerð eftir teiknimyndasögum sem gerast síðar á ævi Wolverine.

merchantJames Mangold er aftur mættur í stól leikstjóra, en Hugh Jackman, sem leikið hefur persónu Wolverine í 17 ár, segir að þetta verði svanasöngur hans í því hlutverki.

Tökur byrja fljótlega, samkvæmt Empire ritinu, og frumsýning er áætluð 2. mars 2017.