Þrettándu verðlaun Þrasta

Kvikmyndin Þrestir fékk um helgina aðalverðlaun Alþjóðasambands kvikmyndagagnrýnenda, FIBRESCI, á lokahátíð kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg.

Í tilkynningu frá framleiðanda myndarinnar segir að um sé að ræða þrettándu alþjóðlegu verðlaunin sem myndin fær síðan hún var frumsýnd seint á síðasta ári.

þrestir

Fyrir nokkrum dögum var einnig tilkynnt að Þrestir hefðu unnið Scope 100 áhorfendaverðlaunin í Noregi og Ungverjalandi og mun fyrir vikið fara í almenna kvikmyndahúsadreifingu í viðkomandi löndum.

Í næstu viku byrjar kvikmyndahátíðin í Berlin en þar hefur aðalleikari myndarinnar, Atli Óskar Fjalarson, verið valinn til að vera svokölluð Shooting star vegna frammistöðu sinnar í Þröstum. Er þetta mikill heiður fyrir Atla en árlega eru valdir efnilegust leikarar Evrópu í þennan hóp.

“Við erum náttúrulega í skýjunum yfir öllum þessum viðurkenningum. Þetta er auðvitað afrakstur heils hers af hæfileikaríku fólki sem gekk í gegnum eld og brennistein til að gera þessa mynd að veruleika og ég á ekki til orð til að lýsa því hvað ég er stoltur að þeim öllum.

Þrestir eru einnig að fara að fá fína kvikmyndahúsadreifingu úti í hinum stóra heimi og vonumst við til að loka síðustu samningunum nú í Berlin, “ Segir Rúnar Rúnarsson leikstjóri myndarinnar í tilkynningunni.

Þrestir er önnur mynd Rúnars í fullri lengd. Sú fyrsta var Eldfjall sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2011 og sópaði upp verðlaunum um allan heim. Rúnari skaut fram á sjónarsviðið þegar hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir bestu leiknu stuttmynd árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn.

Þrestir, sem enn er í sýningum í Bíóparadís, er ljóðræn dramatísk mynd sem fjallar um 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að búa með föður sínum sem hann hefur ekki séð í ein sex ár.

Í helstu hlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurdsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Kristbjörg Kjeld. Tónlist myndarinnar er samin af Kjartani Sveinssyni.