Vonbrigði að fá ekki Óskarstilnefningu

Leikstjórinn Grímur Hákonarson segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að mynd hans Hrútar hafi ekki verið tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki erlendra mynda.

Hrútar Rams

„Á mörgum stöðum var greint frá því að Hrútar væri mjög líkleg til að fá Óskartilnefningu og þess vegna kom það okkur á óvart að komast ekki í gegnum nálaraugað,“ sagði Grímur í viðtali við Variety.

Hrútar hefur unnið til nokkurra verðlauna, þar á meðal Un Certain Regard á Cannes-hátíðinni.

„Á hverju ári fá margar myndir sem er talað um að verði tilnefndar ekki tilnefningu. Í fyrra var Ruben Ostlund (leikstjórinn) einn þeirra  og það er skrítin tilfinning að vera í sömu stöðu í dag. En kannski voru þau bara ekki nógu hrifin af myndinni,“ bætti hann við.

„Að keppa um Óskarstilnefningu er ekki jafn leikur og ég held að þak á eyðslu peninga í kynningarherferðir myndi skapa jafnari grundvöll, þannig að myndir frá smærri ríkjum þar sem kvikmyndaiðnaðurinn er að sækja fram gætu fengið meiri athygli.“