Jóhann tilnefndur til BAFTA fyrir Sicario

Íslenska kvikmyndatónskáldið og Golden Globe verðlaunahafinn Jóhann Jóhannsson hefur verið tilnefndur til Bafta-verðlauna annað árið í röð – nú fyrir tónlist sína við kvikmyndina Sicario.

jóhann jóhannsson

Eins og segir í frétt RÚV þá hefur tónlist Jóhanns hlotið mikið lof, en í BAFTA etur Jóhann kappi við tvö af þekktustu tónskáldum kvikmyndasögunnar – Ennio Morricone ( The Hateful Eight )  og John Williams ( Star Wars: The Force Awakens).

Jóhann var tilnefndur í fyrra til Bafta, Óskarsverðlauna og Golden Globe fyrir tónlist sína við kvikmyndina Theory of Everything og hlaut þau síðastnefndu – fyrstur Íslendinga.

Í frétt RÚV er vitnað í Everest og Sicario leikarann Josh Brolin, sem lofar tónlist Jóhanns:“ „Hún er í mínum huga einhver besta tónlist sem ég hef nokkurn tíma heyrt í nokkurri mynd.“

Flestar tilnefningar til BAFTA verðlauna fá myndirnar Bridge of Spies eftir Steven Spielberg og Carol, með Cate Blanchett í aðalhlutverki, eða níu tilnefningar talsins.

Kvikmyndin The Revenant eftir Alejandro González Iñárritu hlaut átta tilnefningar. Mad Max: Fury Road, sem lesendur kvikmyndir.is völdu bestu mynd síðasta árs á dögunum, fékk 7 tilnefningar.

Athygli vekur að hin stórgóða mynd David O. Russell, Joy, fær enga tilnefningu, en myndir Russell hafa verið tilnefndar til margra verðlauna í gegnum árin, myndir eins og Silver Linings Playbook, The Fighter og American Hustle.