Star Wars laun: Ford með 76 sinnum hærri laun

Star Wars: The Force Awakens er enn á mikilli siglingu í bíóhúsum heimsins og sýningar enn uppseldar víða um heim, þar á meðal á Íslandi. MovieFone vefsíðan fjallar um hvað leikararnir bera úr býtum, í ljósi þessa ótrúlega góða árangurs myndarinnar.

harrison

Samkvæmt frétt Daily Mail þá fengu leikararnir mismikið borgað, en tölurnar eru byggðar á samantekt Variety kvikmyndaritsins sem fékk upplýsingarnar frá sínum heimildarmönnum:

Harrison Ford ( Han Solo ) fékk átta stafa tölu ( 10-20 milljónir Bandaríkjadala – 1,3 – 2,6 milljarðar íslenskra króna )

Carrie Fisher ( Leia ) og Mark Hamill ( Luke ) fengu lága sjö stafa tölu.

Oscar Isaac ( Poe Dameron ) og Adam Driver ( Kylo Ren ) fengu sex stafa tölu ( meira en 500 þúsund Bandaríkjadali )

Daisy Ridley ( Rey ) og John Boyega ( Finn ) fengu í kringum 100 – 300 þúsund dali.

Þetta þýðir, ef rétt er, að Ford þénaði 76 sinnum meira en Ridley og Boyega.

Kaupið er réttlætt með því að Ford er stórstjarna en Ridley og Boyega ungir leikarar auk þess sem ákveðið var að borga leikurunum úr gömlu myndunum ríflega fyrir sinn hlut. Ennfremur byggðist söguþráður myndarinnar mjög mikið á þátttöku Ford, eins og þeir vita sem séð hafa myndina.

„Harrion er lykillinn að því að myndin gangi upp. Hann er tengillinn á milli gömlu kynslóðarinnar og þeirra nýju,“ sagði heimildarmaður Daily Mail.

„Mark Hamill og Carrie Fisher voru góð vibót, en myndin hefði verið gerð án þeirra. Það hefði hinsvegar ekki verið hægt án Harrison Ford.“