Uppáhaldsatriði Martin Scorsese

Martin Scorsese segir að uppáhaldsatriðið úr öllum sínum myndum sé hið fræga einnar töku atriði á staðnum Copacabana í Goodfellas.

Leikstjórinn segist hafa farið á Copacabana þegar hann var yngri og séð mafíósana mæta og vera með alls konar vandræði. Þannig fékk hann hugmyndina að atriðinu.

Í viðtali við Shortlist sagði hann atriðið hafa verið skipulagt eins og ballett.

„Myndavélin varð að vera á borðinu á réttum tíma og réttum hraða og síðan eltum við borðið inn í þennan helgidóm þar sem við sjáum þau sitja og sjáum allt fólkið, alla fastagestina í þessari veröld,“ sagði Scorsese. goodfellas

„Það hvernig leikarinn sem lék herra Tony veifaði og rétt komst í rammann, gerði þetta dálítið fyndið. Svo þegar hún spurði hvað hann gerði, sagðist hann vera í verktakabransanum. Þetta endaði svo allt á Henny Youngman, einnar línu grínistanum, og það valt allt á honum. Hann var frábær,“ bætti hann við.

Goodfellas kom út 1990 og er af mörgum talin ein besta mynd allra tíma.