Nýtt í bíó – Pan!

Ævintýramyndin Pan eftir Joe Wright verður frumsýnd föstudaginn 16. október nk. í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík,  og í Laugarásbíói, Selfossbíói, Ísafjarðarbíói og Bíóhöllinni Akranesi.

Svartskeggur sjóræningi, einvaldur í Hvergilandi, lætur menn sína ræna munaðarlausum börnum til að gerast þrælar hans við að safna álfaryki. Kvöld eitt ræna þeir hinum unga Pétri og flytja hann ásamt fleiri börnum til Hvergilands – og þar með hefst sagan af Pétri Pan.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Pan er eftir hinn margverðlaunaða leikstjóra Joe Wright sem á m.a. að baki myndirnar Atonement, Pride & Prejudice og Hanna. Myndina gerir hann eftir sögu og handriti Jasons Fuchs (Ice Age: Continental Drift, Wonder Woman) en það er forsagan af því hvernig ævintýrapersónan Pétur Pan varð til eftir að hann kom fyrst til Hvergilands og hitti m.a. kaftein Krók, Tígris-Lilju og fleiri persónur ævintýrsins í fyrsta skipti.

pan movie

Hvernig byrjaði ævintýrið um Pétur Pan? Við kynnumst Pétri hér fyrst á munaðarleysingjahæli í nunnuklaustri en þar lenti hann þegar móðir hans skildi hann eftir á tröppum klaustursins ásamt bréfi þar sem hún lofaði að einn góðan veðurdag myndi hún snúa til baka.

Nótt eina er Pétri rænt úr rúmi sínu ásamt fleiri munaðarleysingjum og fluttur á skýjaskipinu Jolly Roger til Hvergilands þar sem hinn illi Svartskeggur sjóræningi ræður ríkjum. Þar er börnunum ætlað að þræla fyrir Svartskegg við að safna álfaryki því Svartskeggur trúir því að álfaryk geti gert mann ódauðlegan. Í græðgi sinni hefur Svartskeggur hins vegar útrýmt meira en helmingnum af álfastofninum og það á eftir að koma í hlut Péturs og félaga að bjarga honum – og um leið að svipta Svartskegg völdunum…

Leikarar: Hugh Jackman, Levi Miller, Jimmy Vee, Amanda Seyfried, Cara Delevingne, Rooney Mara og Garrett Hedlund

Leikstjórn: Joe Wright

Aldurstakmark: 6 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

– Handrit myndarinnar var í byrjun árs 2013 á „svarta“- listanum í Hollywood yfir áhugaverðustu handritin.

– Til að finna rétta strákinn í hlutverk Péturs Pan var þúsundum ungra leikara boðið í prufutökur í Englandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu þar til hinn 11 ára gamli Levi Miller var ráðinn. Hann er Ástrali eins og Hugh Jackman sem leikur Svartskegg sjóræningja og hafði það m.a. einmitt á afrekaskránni að hafa leikið Pétur Pan í skólaleikriti.

– Foreldrar leikstjórans Joes Wright ráku brúðuleikhús og hefur Joe sagt að með gerð Pan hafi hann verið að leita aftur í æskuminningar sínar þegar brúðuleikhúsið var hans eigið ævintýraland, og að myndina vilji hann tileinka sínum eigin syni, Zubin Shankar Wright, sem er fjögurra ára.