Inni í hugarheimi Marlon Brando

Listen to me Marlon var RIFF-mynd gærdagsins. Myndin var sýnd í sal 2 í Bíó Paradís og voru áhorfendur frekar fáir, enda var hún sýnd klukkan 13.30. 1638832 001

Um er að ræða heimildarmynd þar sem notast er við hljóðupptökur sem leikarinn Marlon Brando tók sjálfur upp. Þetta er því eins konar sjálfsævisaga þar sem stuðst er við alls kyns myndefni.

Myndin lýsir viðburðaríku lífi Brando og sýnir ansi vel manninn á bak við goðsögnina. Lengi vel efaðist Brando um eigið ágæti og spilaði þar inn í erfið æska.  Móðir hans var alkóhólisti sem yfirgaf hann ungan að árum og pabbi hans var einnig drykkfelldur og beitti bæði hann og móður hans ofbeldi.

Brando lærði leiklist hjá Stellu Adler og var einn af brautryðjendunum í „method acting“ í Hollywood þar sem leikarinn kynnir sér viðfangsefni sitt í þaula og reynir að gera persónuna eins raunverulega og mögulegt er.

Brando varð fljótt einn af dáðustu leikurum Hollywood eftir leik sinn í myndum á borð við A Streetcar Named Desire, On the Waterfront og The Wild One. Honum var alla tíð illa við sviðsljósið og þótti yfirborðsmennskan og sölumennskan í Hollywood full mikil fyrir sinn smekk.

Hann lét sig mannréttindamál í Bandaríkjunum varða og barðist fyrir auknum réttindum þeldökkra og indíána.

Metnaður Brando fyrir leiklistinni fór þverrandi og lék hann í um það bil í einni mynd á ári eingöngu til að hafa í sig og á. Hann átti þó öfluga endurkomu er hann fékk hlutverk mafíuforingjans Don Corleone í The Godfather og í myndinni Last Tango in Paris í leikstjórn Ítalans Bernando Bertolucci.

Fjallað er um erfiðleika í einkalífi Brando í myndinni þar sem forræðisdeila og dauðsföll koma við sögu.

Listen to me Marlon er áhugaverð heimildarmynd sem veitir góða innsýn inn í líf og hugarheim eins þekktasta leikara allra tíma. Vegna notkunar hljóðupptakanna er myndin frekar óhefðbundin og stundum heyrðist tal Brando frekar illa, en var myndin ekki textuð. Það kom samt ekki að sök.

Brando var ekki maður mikilla málamiðlanna og fylgdi hjarta sínu á hinum ýmsu sviðum lífsins. Hann var brautryðjandi og mikill hæfileikamaður en barðist jafnframt við innri djöfla. Öllu þessu eru komið vel til skila í myndinni.