Yrði ánægulegt að leika Obi-Van á ný

Skoski leikarinn Ewan McGregor sagði aðspurður á Kvikmyndahátíðinni í Edinborg í Skotlandi að hann væri til í að leika aftur Obi-Wan Kenobi í Star Wars: „Ég myndi með ánægju leika í mynd þar sem tekinn yrði upp þráðurinn frá Episode 3 þar sem ég hætti og Alec Guinnes tekur við,“ sagði McGregor við skoska blaðið Daily Record. 

ewan mcgregor

Orðrómur hefur lengi verið uppi um að McGregor eigi í viðræðum um að leika persónuna í sérstakri hliðarmynd um Obi-Van, en fyrsta hliðarmyndin í Star Wars seríunni, Rogue One,  er væntanleg í bíó 2016.

Alec Guinness lék Obi-Van Kenobi í fyrstu þremur Star Wars myndunum en McGregor lék persónuna í nýju myndunum sem komu þar á eftir, og gerast á undan upprunalegu myndunum.

Auk þess sagði McGregor í viðtalinu að Star Wars myndirnar hefðu verið honum mikill innblástur sem leikara og sérstaklega það að sjá frænda sinn Denis Lawson á hvíta tjaldinu, en hann lék flugmanninn Wedge Antilles.

Hann gerði einnig létt grín að geislasverðinu sem sést í stiklu nýju myndarinnar, Force Awakens, sem frumsýnd verður um næstu jól, og Kylo Ren ( leikinn af Adam Driver ) sveiflar, og segir: „Ég er nú ekki viss með þessi hjöltu á sverðinu. Ef þú er góður að berjast með geislasverði þá eru þessi hjöltu óþörf.“

Star Wars: The Force Awakens kemur í bíó 18. desember nk.