Carlyle óvart raðmorðingi í Edinborg

Trainspotting og The Full Monty leikarinn og BAFTA verðlaunahafinn skoski, Robert Carlyle,  mun frumsýna fyrstu mynd sína sem leikstjóri, á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Edinborg, þann 17. júní nk. Myndin verður opnunarmynd hátíðarinnar.

once_upon_a_time

 

Myndin heitir The Legend of Barney Thomson, en helstu leikarar eru Emma Thompson, Ray Winstone og Carlyle sjálfur.

Myndin er spennutryllir, með myrkum húmor, og gerist í Glasgow. Hún er byggð á skáldsögu Douglas Lindsay, The Long Midnight of Barney Thomson, og segir frá vesælum rakara, sem Carlyle leikur, sem óvart fremur röð af morðum, með fáránlegum og ógnvekjandi afleiðingum.

Til að flækja málin enn frekar þá á móðir hans Semolina, sem Thompson leikur, leyndarmál, sem hrindir af stað blóðugri en bráðfyndinni atburðarás. Á meðan Barney reynir á sinn klaufalega hátt að hylma yfir gjörðir sínar og móður sinnar, þá reynir lögreglan á staðnum, Holdall, sem Winstone leikur, að leysa málið.

Tom Courtenay, Ashley Jensen, Martin Compston, Brian Pettifer, Kevin Guthrie, James Cosmo, Stephen McCole og Samuel Robertson leika einnig í myndinni.