The Equalizer 2 á leiðinni

Sony kvikmyndafyrirtækið tilkynnti opinberlega nú í vikunni að gert yrði framhald á hinum stórfína spennutrylli The Equalizer, með Denzel Washington í aðalhlutverkinu.

Orðrómur hefur verið í gangi um mögulegt framhald í marga mánuði, eða allt síðan fyrsta myndin var frumsýnd í september sl., en gott gengi myndarinnar í miðasölunni, og á DVD/VOD, réð að lokum úrslitum um gerð framhaldsins.

denzel

Búist er við að Washington mæti aftur til leiks sem hinn „ósýnilegi“ sjálfskipaði laganna vörður, Robert McCall, öðru nafni The Equalizer, sem kallar ekki allt ömmu sína, og vill hjálpa þeim sem minna mega sín og beittir eru ranglæti. Chloe Moretz og Marton Csokas léku einnig stór hlutverk í fyrri myndinni.

Myndin er byggð á vinsælum samnefndum sjónvarpsþáttum frá níunda áratug síðustu aldar, sem sýndir voru hér á landi á sínum tíma. Myndin þénaði 192 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim á síðasta ári.

Antoine Fuqua ( Training Day ) leikstýrði fyrri myndinni, en ekki er vitað með endurkomu hans.

Þeir félagarnir, þ.e. Fuqua og Washington, vinna næst saman í endurgerð á Magnificent Seven, en með þeim í henni er  einnig Training Day leikarinn Ethan Hawke.