Gerði stuttmynd um bræður

doddiKvikmyndagerðarmaðurinn Þórður Pálsson útskrifaðist úr National Film and Television School (NFTS) í Bretlandi af leikstjórnarbraut í síðasta mánuði. Skólinn hefur oft verið nefndur einn af betri kvikmyndaskólum í heimi og valdi tímaritið The Hollywood Reporter t.a.m. NFTS besta aljóðlega kvikmyndaskólann.

Þórður hóf nám við Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2010 og lærði þar framleiðslu og leikstjórn. Eftir námið vildi Þórður mennta sig meira í faginu og lá þá leið hans út til Bretlands í meira nám.

,,Tími minn hjá NFTS hefur verið frábær, ég hef lært mjög mikið um praktíska kvikmyndagerð en mest áhersla er lögð á að vinna með leikurum og þróa handrit frá hugmynd til enda. Ég er mjög ánægður með að við fengum að gera þrjár stuttmyndir yfir þessi tvö ár.“ segir Þórður og heldur áfram að lofsama skólanum.

,,Skólinn sjálfur og fólkið sem vinnur hérna hefur verið frábært og mér líður eins og ég þekki alla mjög persónulega. Samnemendur mínir á árinu eru líka allir frábærir og hef ég eignast marga vini sem ég mun vonandi eiga það sem eftir er.“ segir Þórður að lokum um námið.

brothersEins og fram kemur þá stundaði Þórður nám við skólann í tvö ár og að lokum gerði hann útskriftarmynd. Myndin ber heitið Brothers og fjallar um hinn sextán ára gamla Chris sem býr með vandræðagemsanum bróður sínum, honum David, í þorpi við sjávarsíðuna. Einn örlagaríkan dag finnur hann David í blóði sínu á stofugólfinu, um sama leyti og falleg utanbæjar stúlka kemur óvænt inn í líf hans. Hún verður til þess að Chris dreymir um eitthvað betra, en David virðist enn einu sinni ætla að drepa þá von í fæðingu og draga hann aftur niður í svaðið.

Þórður ætlar sér að búa í Bretlandi og vinna sem kvikmyndagerðarmaður. Skólinn hefur marga tengiliði á snærum sér og fá nemendur viðtöl við kvikmyndafyrirtæki að námi loknu.

,,Daginn fyrir útskriftina þá hélt NFTS sýningu fyrir iðnaðinn hérna á Englandi þar sem flest öll framleiðslufyrirtæki og umboðsskrifstofur komu og horfðu á lokaverkefnin okkar. Eftir útskrift hef ég verið að fara á fundi hjá ýmsum umboðsskrifstofum og hef ég fengið nokkur tilboð frá þeim.“ segir Þórður.

Þórður slær ekki slöku við eftir útskrift því hann er nú þegar byrjaður að undirbúa kvikmynd í fullri lengd ásamt samnemanda sínum úr skólanum og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá stiklu úr stuttmyndinni Brothers, eftir Þórð.