Gul spenna á Blu

Blood and Black Lace

Arrow Video í Bretlandi heldur áfram að heiðra minningu ítalska leikstjórans Mario Bava en væntanleg í apríl nk. er einn frægasti „Giallo“ tryllirinn „Blood and Black Lace“ í troðfullri Blu-ray útgáfu.

„Giallo“, eða einfaldlega „gulur“ er orðatiltæki notað til að ná yfir tegund af ítölskum spennumyndum sem tröllriðu evrópska markaðnum á sjöunda og áttunda áratugnum. „Giallo“ vísar til gulra kápa sem hýstu spennusögur í anda Agöthu Christie sem voru morðgátur með frekar svæsnum og ofbeldisfullum lýsingum. Bækurnar voru flestar skrifaðar á fjórða og fimmta áratugnum og teljast seint til merkilegra bókmennta en þær seldust grimmt og voru nógu myndrænar til að ala af sér heila kvikmyndategund seinna meir. Mario Bava er gjarnan talinn forsprakki þessarrar kvikmyndategundar en segja má að Dario Argento hafi síðar fullkomnað hana og samtímamenn á borð við Lucio Fulci, Umberto Lenzi og Aldo Lado lögðu sitt á vogarskálarnar og áttu góða spretti.

Giallo2

„Blood and Black Lace“ er frá árinu 1964 og er sögð hafa lagt línurnar fyrir hvernig „giallo“ myndir áttu eftir að verða.  Í myndinni er grímuklædd manneskja að myrða fyrirsætur í tískuhúsi á hugmyndaríkan hátt og með ýmsum tækjum og tólum. Sálfræðilegar flækjur, útlitsdýrkun, blæti af ýmsum tegundum og ofbeldisfull morðatriði í bland við grunna persónusköpun, klunnaleg samtöl og óviðeigandi húmor eru nokkur af einkennandi ummerkjum „giallo“ mynda en heildin er fantagóð skemmtun; a.m.k. í vel heppnuðu myndunum. „Blood and Black Lace“ þykir einnig búa yfir mörgum þáttum sem komu til með að einkenna slægjumyndir („slasher“) áttunda og níunda áratugarins en Bava sendi frá sér fyrstu af þeirri tegund árið 1971 með „Bay of Blood“ (einnig til í viðhafnarútgáfu á Blu-ray frá Arrow).

Mario Bava

Arrow gefur einfaldlega út bestu pakkana þegar kemur að Mario Bava á Blu-ray. Undanfarin ár hafa komið út „Black Sunday“ (1960), „Baron Blood“(1972), „Lisa and the Devil“(1972), „Black Sabbath“(1963), „Rabid Dogs“(1974) og nú síðast „The Girl Who Knew Too Much“(1963) sem kom út í nóvember á síðasta ári og er sú einmitt titluð sem fyrsta „giallo“ myndin. Eins og titillinn á þeirri mynd gefur til kynna sótti Bava töluverðan innblástur til Alfred Hitchcocks (sem gerði „The Man Who Knew Too Much“) sem og Agöthu Christie. The Girl Who Knew Too MuchÍ myndinni dregst amerískur túristi (leikin af Leticiu Roman) í morðgátu í Róm á Ítalíu þar sem fórnarlömb týna tölunni, að því er virðist, eftir stafrófsröð. Búið er að myrða þrjár manneskjur sem byrja á stöfunum A, B og C; og ameríski túristinn hefur einmitt eftirnafnið Davis. Ekki ólíklegt að „The A.B.C. Murders“ eftir Agöthu Christie hafi veitt smá innblástur hér.

Væntanlegi „Blood and Black Lace“ Blu-ray pakkinn er troðfullur af aukadóti sem og algerri myndrænni yfirhalningu sem ætti að tryggja fína háskerpu og er útgáfudagurinn 13. apríl næstkomandi.

Stikk: