Stuðningur við gerð fimm stuttmynda

Klapp kvikmyndafélag blæs til skærumyndaverkefnis í vor, í annað sinn, þar sem verðandi og núverandi kvikmyndagerðafólki er boðið að gera stuttmynd með stuðningi félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

klapp_poster2-1024x340

Klapp, sem er samvinnufélag kvikmyndagerðafólks, var stofnað árið 2010 og hélt árið 2011 sambærilegt verkefni sem gat af sér 7 stuttmyndir sem voru frumsýndar í Bíó paradís það vor.

Að þessu sinni verða fimm hugmyndir eða handrit valin og aðstandendum þeirra boðin aðstoð við framleiðsluna. Aðstoðin felst í afnotum að grunntækjabúnaði til kvikmyndagerðar, aðstoð við gerð tíma- og kostnaðaráætlunar og aðgengi að handrita- og þróunarsmiðju til að koma verkefninu áfram, ásamt tækja- og tæknikynningum.

Hugmyndafræði Klapp byggist á að efla samvinnu fólks innan greinarinnar og er markmið þess að að leggja vandað og framsækið efni til flóru kvikmyndagerðar. Félagið er ýmist beinn framleiðandi að kvikmyndum, samframleiðandi eða stuðlar að verkefnum sem auðvelda framleiðslu annarra aðila svo sem skærumyndaverkefnið er. Félagið vill draga fram hið besta í hæfileikum og sköpunargleði kvikmyndagerðafólks, og rækta andrúmsloft metnaðar og samvinnu.

„Skærumyndir miða að því að gefa fólki ramma og tækifæri til að framleiða myndir í samfélagi við annað kvikmyndagerðarfólk. Verkefnið er opið reyndari aðilum í greininni sem og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref. Nauðsynlegt er að þátttakendur búi yfir nægjanlegri reynslu og sjálfstæði til að framkvæma eigið verkefni, en að öðru leyti eru þeir sem ekki hafa mikil tengsl við “bransann” boðnir velkomnir,“ segir í tilkynningunni.

Umsóknarfrestur er til og með 4. mars 2015. Umsóknir skulu sendar á klapp@klapp.is. Að taka þátt er ókeypis, en þátttakendur skuldbinda sig til að ljúka við gerð myndarinnar á meðan að á verkefninu stendur. Verkefnið hefst í mars, og fer fram til maí. Stefnt er á frumsýningu mynda í byrjun júní.

Smelltu hér til að fá frekari upplýsingar um málið. 

Stikk: