Assassin´s Creed kemur 2016

Forstjóri leikjafyrirtækisins Ubisoft, Yves Guillemot, staðfesti á fundi með fjárfestum í vikunni að kvikmyndaútgáfa af tölvuleiknum vinsæla Assassin´s Creed, sem margir hafa beðið eftir með óþreyju, myndi koma í bíó 21. desember 2016. Undirbúningur fyrir tökur er hafinn, en leikstjóri verður að öllum líkindum Snowtown og Macbeth leikstjórinn Justin Kurzel.

assassins

„Við tilkynnum með ánægju í dag að það hefur verið gefið grænt ljós hjá New Regency, og framleiðsla myndarinnar er hafin,“ sagði Guillemot. „Þetta er mikilvægur áfangi fyrir verkefnið og okkur sem vinnum að Assassins´s Creed.“

Michael Fassbender, sem mun að öllum líkindum leika aðalhlutverkið í myndinni, Desmond Miles, er sem stendur á fullu að leika Apple stjórann Steve Jobs í mynd Danny Boyle. Söguþráður er enn óljós, en ljóst er að notast verður við umhverfi ítölsku endurreisnarinnar úr Assassin´s Creed II.

Leikurinn fjallar um látlausan barþjón sem dregst inn í ævintýralegan heim leigumorðingja, og ferðast um í tíma og rúmi og endurlifir líf forfeðra sinna með hjálp nýjustu DNA tækni.