Bangsinn kjaftfori væntanlegur í sumar

ted,,Ted er að koma, aftur“ er markaðsslagorð framhaldsmyndarinnar Ted 2, sem verður frumsýnd í sumar. Fyrsta plakatið, sem má sjá hér til vinstri, var opinberað fyrir stuttu og þar má sjá afturenda bangsans kjaftfora, þar sem hann virðist vera að gamna sér.

Mark Wahlberg fer með hlutverk eiganda bangsans, John Bennett, á ný. Að þessu sinni fer leikkonan Amanda Seyfried með hlutverk kærustu Bennett, en Mila Kunis fór með sama hlutverk í fyrstu myndinni. Ásamt því að stórleikarinn Morgan Freeman mun fara með hlutverk lögfræðings sem hjálpar Ted við að leysa úr lagalegum flækjum.

Seth MacFarlane skrifar handritið, leikstýrir og ljáir bangsanum rödd sína líkt og í fyrstu myndinni sem kom út árið 2012 og halaði inn 549 milljónum USD á heimsvísu.

Í upprunalegu myndinni er sagt frá sambandi Ted og eiganda hans. Í fyrstu lifa þeir áhyggjulausu lífi þar til eigandinn kynnist stelpu sem hvetur þá félaga til að þroskast. Eftir að Bennett og kærastan hafa svo verið að hittast í fjögur ár fær hún nóg af því að Bennett skuli alltaf velja bangsann fram yfir hana og þá vandast málin því að hann og Ted eru algjörlega óaðskiljanlegir.

Áætlað er að frumsýnda Ted 2 þann 26. júní næstkomandi.