McCarthy verður draugabani

Gamanleikkonan Melissa McCarthy mun fara með aðalhlutverk í nýrri mynd um draugabanana (e. Ghostbusters) ásamt Kristen Wiig, Leslie Jones og Kate McKinnon. Paul Feig mun leikstýra myndinni en hann er þekktastur fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndinni Bridesmaids frá árinu 2011.

kristen_wiig_leslie_jones_kate_mckinnon_melissa_mccarthy

Ný mynd um draugabanananna hefur verið lengi í farteskinu. Fyrst átti upprunalegi leikarahópurinn að koma saman á ný. Bill Murray hætti fyrst við og svo lést Harold Ramis. Því var ákveðið að hætta við myndina og ákvað framleiðslufyrirtæki myndarinnar að fara í allt aðra átt með kvenkyns draugabönum.

Upprunalega myndin var frumsýnd árið 1984 og fjallaði um þrjá dulsálarfræðinga sem stofnuðu fyrirtæki sem fæst við að eyða draugum í New York-borg. Leikstjóri var Ivan Reitman og handritið skrifuðu Dan Aykroyd og Harold Ramis sem léku aðalhlutverk í myndinni ásamt Bill Murray, Ernie Hudson, Sigourney Weaver, Rick Moranis og Annie Potts.

Áætlað er að tökur á nýjustu myndinni muni hefjast í sumar í New York í Bandaríkjunum.

The Hollywood Reporter greinir frá.