Táldreginn Reeves lagður í rúst

Matrix leikarinn Keanu Reeves, Hostel leikstjórinn Eli Roth, kynlíf, hrollur og spenna, er nokkuð forvitnileg blanda, en allt þetta má finna í myndinni Knock Knock sem væntanleg er síðar á þessu ári. Fyrsta sýnishornið úr myndinni var frumsýnt nú um helgina en um er að ræða svokallaðan heimilistrylli, þ.e. einhver ógn kemur inn á fullkomið heimili og úr verður mikill tryllir.

Knock-Knock1

Í tilfelli Knock Knock þá eru það tvær stúlkur sem banka á dyrnar hjá Keanu Reeves, sem verður þá upphafið á einhverju spennandi, ef eitthvað er að marka kitluna:

Í aðalhlutverkinu í myndinni er fyrrnefndur Keanu Reeves í hlutverki Evans, vinsælum arkitekt sem lifir að því er virðist frábæru og fullkomnu lífi. Hann á glæsilega eiginkonu, börn sem gengur vel í öllu sem þau taka sér fyrir hendur, og draumaheimili sem hann hannaði sjálfur. Allt virðist í himnalagi, og Evan verður eftir heima þegar fjölskyldan fer á ströndina á feðradaginn.

Ekki líður á löngu áður en barið er að dyrum, en það eru þær Bel, sem Ana de Armas leikur, og Genesis, sem eiginkona Roth, Lorenza Izzo, leikur. Þessar tvær fallegu ungu konur daðra við Evan og tæla hann, og hann lætur undan, þó hann standist þær í fyrstu. Daginn eftir er heimili hans í rúst, og fljótlega neyðist hann til að taka þátt í sadistískum leikjum sem Bel og Genesis hafa undirbúið fyrir elskhuga sinn og fórnarlamb.

Eins og ScreenRant vefsíðan bendir á þá er um að ræða mynd sem byggir á myndinni Death Game frá árinu 1977. Upphaflega ætlaði Roth að endurgera þá mynd, en það reyndist illmögulegt fyrir hann að kaupa réttinn til þess þar sem fyrirtækin sem gerðu myndina og áttu réttinn voru löngu farin á vit feðra sinna.

Roth ákvað því að ráða leikstjóra Death Game, Peter Traynor, og aðalleikkonurnar, þær Colleen Camp og Sondra Locke, í framleiðsluteymi Knock Knock.

Reeves fékk síðast lof fyrir leik sinn í John Wick, en myndin naut mikilla vinsælda í bíó á síðasta ári og þénaði 70 milljónir Bandaríkjadala, en kostaði einungis 20 milljónir dala.